Turninn á Lækjartorgi
| 24.-27.03
| 12.00-18.00
Skyrkonfektið er sérhannað og þróað af þátttakendum í rannsóknarverkefni Listaháskóla Íslands Stefnumót hönnuða og bænda, fyrir Rjómabúið á Erpsstöðum.
Stefnumót hönnuða og bænda er frumkvöðlaverkefni í þágu atvinnulífsins þar sem tvær starfsstéttir eru leiddar saman til að skapa einstaka afurð. Mikil sóknartækifæri felast í matvælaframleiðslu og með markvissri nýsköpun á hráefninu er hægt að margfalda virðisaukann. Í sérstöðu og upplifun felast mikil verðmæti, því er markmið verkefnisins að þróa héraðsbundnar matvörur byggðar á hæstu gæðum, rekjanleika og menningarlegri skírskotun. Í verkefninu er einni af elstu starfstéttum landsins, bændum, teflt saman við eina af yngstu starfsstéttunum: hönnuðum. Markmið verkefnisins er að þær afurðir sem verða þróaðar skapi efnahagslegan ávinning og verði bændum fyrirmyndir á sviði þess að auka vægi nýsköpunar í framleiðslunni, í samstarfi við hönnuði.
Rjómabúið Erpsstaðir er fjölskyldufyrirtæki í Dölunum þar sem heiðarleiki og gegnsæi eru undirstöðuþættir í framleiðslunni. Á býlinu búa mjólkurkýrnar við bestu hugsanlegu aðstæður og ráða tíma sínum sjálfar. Undir sama þaki framleiða bændurnir afurðir sínar af kostgæfni með það að markmiði að opna nýjar víddir í upplifun á mjólkurafurðum.
Skyrkonfektið verður til sölu í Turninum á meðan á sýningunni stendur.
Aðstandendur verkefnisins eru: Sigríður Sigurjónsdóttir prófessor í vöruhönnun við LHÍ, Guðfinna Mjöll Magnúsdóttir og Brynhildur Pálsdóttir hönnunarstjórar verkefnisins, Jordi Serra grafískur hönnuður, Kristín Birna Bjarnadóttir og Sabrina Stiegler vöruhönnuðir, Örvar Birgisson konditorimeistari, Matís, þekkingar- og rannsóknarfyrirtæki í matvælaiðnaði og síðast en ekki síst bændurnir á Erpsstöðum: Þorgrímur Einar Guðbjartsson og Helga Guðmundsdóttir, ásamt Ingvari Bæringssyni mjólkurfræðingi. Verkefnið er styrkt af Tækniþróunarsjóði, Framleiðnisjóði Landbúnaðarins og Hönnunarsjóði Auroru