Vöruhönnun, skartgripahönnun og keramik

Al 13 | Íslensk hönnun - íslenskt ál

Epal Skeifan 6 | 24.-25.03 10:00-18:00 | 26.03 11:00-16:00 | 27.03 12:00-16:00

Fjöldi hönnuða sýnir verk sín, unnin úr áli, í húsakynnum verslunarinnar Epal á HönnunarMars. Verkefnið er unnið í samvinnu við Samál og Nýsköpunarmiðstöð Íslands. Þátttakendur eru: Berglind Snorradóttir, Jón Snorri, Pétur Tryggvi, Laufey Arnarsdóttir, Þóra Björnsdóttir, Dögg Guðmundsdóttir, Þórdís Helgadóttir, Ólafur Þór Erlendsson, Sylvía Kristjánsdóttir, Jón Ari Helgason, Sverrir Sverrisson og Manfreð Vilhjálmsson.

Það er skemmtileg tilviljun að einmitt nú þegar 125 ár eru frá því Bandaríkjamaðurinn Charles Martin Hall uppgötvaði álið skuli Eyjólfur Pálsson í EPAL kynna hér á landi nýtt verkefni sem byggist á íslenskri hönnun og íslensku hráefni, nefnilega álinu.

Verkefnið er unnið í samvinnu EPAL við Samál, samtök áverksmiðjanna þriggja á Íslandi og Nýsköpunarmiðstöðina.

Verkefnið nefnist Al13 en Al er efnatákn frumefnisins áls og 13 er sætistala þess í bórhópi lotukerfisins. Upphaf þessa verkefnis má í raun rekja til þess að Eyjólfur dvalist austur á landi fyrir tveimur árum en þangað fór hann í þeim tilgangi að fá hugmyndir að því hvernig mætti nýta íslenskt hráefni til að framleiða úr verk íslenskra hönnuða. Skógar Austurlands vöktu áhuga hans og nokkrir íslenskir hönnuðir tóku að sér að hanna hluti sem mætti vinna úr austfirsku trjánum. Árangurinn var svo kynntur á Hönnunarmars í fyrra.

Álverið á Reyðarfirði var á hvers manns vörum þegar Eyjólfur var eystra og hann sá að þarna var hráefni, ólíkt trénu, sem vert var að leiða hugann að og gefa hönnuðum kost á að koma með hugmyndir varðandi nýtingu þess. Eyjólfur segist ekki hafa blandað sér í umræður um virkjanir né verksmiðjubyggingar en álið sé vissulega komið hingað til að vera. Og því sé ástæða til að finna leiðir til að nýta það. Ein leiðin sé að fá hönnuði til þess að koma með hugmyndir að hlutum úr áli og fá iðnaðarmenn til að framleiða þá. Með því fáist meira verðmæti úr þessu hráefni sem framleitt sé á Íslandi.

Eyjólfur hefur m.a. fengið til liðs við sig gull- og silfursmiði sem þegar hafa tekið hráefnið og notað á margvíslegan hátt í verk sín. Til dæmis hafa skálar verið barðar úr hertu áli líkt og gert hefur verið úr silfri. Þetta eru glæsilegir hlutir sem geta bæði verið nytjahlutir og skraut á heimilinu. Þá hafa menn verið að búa til snaga, kertastjaka, húsgögn og jafnvel skartgripi úr álinu. Til gamans má nefna að þegar unnið er úr áli í stað silfurs verða hlutirnir að sjálfsögðu miklu ódýrari en útlitið ekkí síðra.

Til að sýna þær andstæðu sem eru í hugmyndunum sem kviknað hafa í kjölfar þessa verkefnis má benda á að búin verða til nafnspjöld úr áli. Eyjólfur spurði starfsmenn álverksmiðjanna hvers vegna þeir væru ekki með nafnspjöld úr áli í stað pappírsnafnspjaldanna sem prentuð væru með gráum lit til að minna á álið. Fátt varð um svör en hugmyndin var hér með komin fram enda markmiðið að sýna að hægt er að nota ál í svo ótalmargt.

„Álspjöldin og milli tíu og tuttugu aðrir hlutir unnir úr áli verða sýndir á Hönnunarmars í EPAL. Allt eru þetta verk 12 hönnuða og vonandi er þetta rétt byrjunin,“ segir Eyjólfur Pálsson í EPAL.

Epal
kpe@epal.is
















Vöru- og iðnhönnun



Dagskrá