Vöruhönnun, skartgripahönnun og keramik

Vöruhús á Laugavegi

Laugavegur 91 | 24.-27.03 | 11:00-18:00



Félag vöru- og iðnhönnuða býður gesti velkomna á sýninguna Vöruhús á Laugavegi. Þar sýna yfir tuttugu vöru- og iðnhönnuðir nýjar og spennandi vörutegundir, en vöruhönnun er vaxandi fag á Íslandi. Við hlökkum til að sjá ykkur! Opnunarhóf verður haldið fimmtudaginn 24. mars á milli 15 og 17. Tónlistarmaðurinn Mugison spilar á nýtt hljóðfæri, Mirstrument, sem hann og Páll Einarsson vöruhönnuður hafa hannað. Hönnuðir verða á staðnum á milli 12 og 16 sunnudaginn 27. mars og svara spurningum.

Sverrir Ásgeirsson

Hleðsluskápur

Lítill vegghengdur skápur sem inniheldur fjöltengi og nýtist til hleðslu síma og annarra smátækja. Hleðslutæki og meðfylgjandi snúruflækja eru í felum inni í skápnum.

Tinna Gunnarsdóttir
Syllur

Smáhillur á vegg sem sprottnar eru upp úr verkefni nemenda við Myndlistaskólann í Reykjavík. Nánar á www.dyndilyndi.is.

Anna Þórunn Hauksdóttir
Ljósið

Styrkur byggir á fjórum einkennum góðs dansara: Hreyfingu, styrk, mýkt og útgeislun. Geyma Smáhirslur unnar út frá plastperlum. Þær gera hluti sýnilegri og minna á leik og gleði.

Hrafnkell Birgisson og Fanney Long
Skurðarbretti

Skurðarbrettin eru framleidd á Íslandi af fyrirtækinu Fást ehf. sem sérhæfir sig í plastvinnslu fyrir matvælaiðnað, sér í lagi fiskvinnslu.

Ragnheiður Tryggvadóttir
Svarti sauðurinn breytir um lit

Svarti sauðurinn er vegghengt fatahengi úr stáli, framleitt á Íslandi. Á sýningunni bætir sauðurinn við sig búk. www.ratdesign.is.

Kristrún Hjartar / Vakna Design
Hversdagsleikinn

Hversdagsleikinn er brot af vörulínu Vakna Design sem leggur áherslu á nytsemi, einfaldleika og skemmtilegheit. Vakna vekur upp hversdagsleg viðfangsefni og skapar þeim nýjan búning.

Marý
Rignandi

Rignandi ljósakróna er innblásin af kyrrðinni sem fylgir á eftir úrhelli.

Ragnheiður Ösp Sigurðardóttir
Notknot

Púðinn Notknot hefur hnútinn að fyrirmynd. Með því að breyta stærð og áferð hnútsins öðlast hann nýjan tilgang og gildi. Hinn harði og fasti hnútur verður mjúkur og notalegur.

Ragnheiður I. Margeirsdóttir RIM
Gersemar

Skartgripalína innblásin af þjóðminjum. Væntanleg á þessu ári í verslanir Leonard. Bleika slaufan 2010 hönnuð af RIM fyrir Krabbameinsfélagið verður einnig til sýnis.

Helga R. Mogensen

Árstíðirnar

Ýmis efniviður er nýttur til að túlka árstíðirnar fjórar í formi hálsmena sem hvert um sig hefur sitt sérkenni; liti og tákn. Lengd Árstíðanna er 162 sm, en uppröðun efnis er breytileg eftir árstíð.

Róshildur Jónsdóttir / Snæbjörn Þór Stefánsson
Hugdetta

Róshildur Jónsdóttir og Snæbjörn Stefánsson hafa unnið að nýjum hlutum á þessu ári. Hér sýna þau meðal annars ljós og húsgögn.

Árni Grétarsson / Darri Úlfsson
Hlutlægt

Rasti er lína af stemmningsljósum þar sem notast er meðal annars við íslenskan við. Fjall 914 er sófi úr vistvænu íslensku hráefni, meðal annars úr íslenskum við.

Róbert Gíslason / Helgi Reyr Gíslason
Gálgi

Borðlampi sprottinn upp úr samfélagi sem heimtar refsingu eftir hrun. Fyrirmyndin er hengingargálgar sem notast var við fyrr á tímum. Hönnunin blandar klassískum stíl saman við nútímaleg form.

Guðrún Edda Einarsdóttir
Íslensk arfleifð

Lokaverkefni í skóhönnun frá London College of Fashion, Cordwainers. Skórnir sækja innblástur í íslenska sögu og menningu, meðal annars sauðskinnsskóna og íslenska faldbúninginn.

Chuck Mack Design
Fákar

Fákar er lína borða og skrifborða úr gegnheilum harðvið og gleri þar sem stuðningsbitar gegna lykilhlutverki. Bekkur Dagrúnar er úr samlímdum krossviði með stálundirstöðum.

Kristín Birna Bjarnadóttir / Friðgerður Guðmundsdóttir - Gerist
Minjagripur Reykjavíkur

Hönnunarteymið Gerist sýnir Reykjavíkurhandklæðið í nýjum litatónum sem og Reykjavíkursápuna. Þessar vörur hlutu fyrstu verðlaun í samkeppni um minjagrip Reykjavíkurborgar. Nánar á www.gerist.is.

Stefán Pétur Sólveigarson / ýmsir listamenn
Ræðubindi

Stefán Pétur Sólveigarson sýnir Ræðubindi, lausn fyrir fólk sem halda þarf ræðu. Ræðubindið verður einnig til sýnis á hönnunarstofu hans, Boxinu Laugavegi 168.

Helga Egilsson
Minnisblokkir

Sérhannaðar minnisblokkir.

Prologus

Prologus heimilið

Prologus hönnunarhús kynnir ný húsgögn fyrir heimilið eftir Guðmund Einarsson.

Björg í bú
Peysuleysi

Fjölnota flík úr 100% íslenskri ull framleidd á Íslandi. Hægt er að nota hana á ótal vegu því að margar flíkur leynast í einu Peysuleysi: Vesti, bóleró, peysa, sjal, ermar, kragi, trefill, hetta og buxur. Peysuleysið fæst í sex mismunandi litum.

Project Reykjavík eftir Berglindi Snorra og Jón Snorra Sigurðsson
Project Reykjavík

Nýjung í milliveggjum, skálar, vegglampar og loftljós. Berglind Snorra sýnir plötustandana Rocking Records í nýrri útfærslu og takmörkuðu upplagi, sem og nýja kertastjaka.

Páll Einarsson og tónlistarmaðurinn Mugison
Mirstrument

Nýtt hljóðfæri sem Páll og Mugison hafa hannað í sameiningu.

Syrusson Hönnunarhús / Reynir Sýrusson
Hangover

Reynir Sýrusson húsgagnahönnuður frumsýnir tvo nýja stóla og Hangover vínrekkann sem hangir á vegg. Einnig teflir hann fram nokkrum sérvöldum hlutum sérstaklega útfærðum fyrir sýninguna.

FærID
Sýnir húsgögn og fylgihluti fyrir heimilið.

Össur hf
Hönnun og þróun stoð- og stuðningstækja

Kynntar verða nýjar vörur á sviði stoð- og stuðningstækja frá Össuri hf. Vörur Össurar hf. hafa vakið athygli víða um heim fyrir framúrskarandi hönnun og hlotið alþjóðleg hönnunarverðlaun.

María Kristín Jónsdóttir
CUT

María Kristín Jónsdóttir kynnir skartgripalínuna CUT sem hlaut fyrstu verðlaun í skartgripasamkeppni Hendrikku Waage 2010.

Ásdís Jörundsdóttir
Dvalinn

Í kollinum Dvalni eru tveir hlutir sameinaðir: kollur og blaðarekki. Líkt og nafni hans úr Snorra-Eddu, tekur Dvalinn lítið pláss, er léttur og meðfærilegur en mjög sterkur og traustur. Dvalinn er smíðaður hérlendis, að öllu leyti úr endurvinnanlegum bylgjupappa.

Róbert Gíslason s: 692 4567
honnunarmars2011@gmail.com
















Vöru- og iðnhönnun



Dagskrá