24.5.2019

Sýningarlok í Hafnarborg og Hafnarhúsinu um helgina




Næstkomandi sunnudag, 26. maí, eru síðustu forvöð að sjá sýningarnar Fyrirvara, eftir Brynjar Sigurðarson og Veroniku Sedlmair, og Teikningar/skissur í leir og textíl, eftir Kristínu Garðarsdóttur, í sýningarstjórnBrynhildar Pálsdóttur í Hafnarborg. 

Af því tilefni verður boðið upp á leiðsögn um sýningarnar kl. 14 með hönnuðunum, ásamt forstöðumanni HafnarborgarÁgústu Kristófersdóttur, og Búa Bjarmari Aðalsteinssyni, vöruhönnuði. Sýningarnar voru settar upp í tilefni af HönnunarMars í ár.

Sýning Brynjars Sigurðarsonar og Veroniku Sedlmair, Fyrirvari, miðar að því að þýða eða tengja saman „hluti“ í umhverfinu við hugmyndir og hugleiðingar að nýjum „hlutum“ en á sýningunni verður sköpunarferlið sjálft sýningarefnið. Vinna er séð sem eins konar röð möguleika og uppspretta fyrir nýjungar. Hljóð verður kveikja að hlut og ljósmynd spinnur af sér formæfingar í teikningu. Markmið sýningarinnar er að nýta og sýna öll þessi stig eða setja fram eins konar kortlagningu á tengingum milli mismunandi hluta og viðfangsefna, að myndgera ferli, hugmyndir og uppsprettur.

Sýning Kristínar Garðarsdóttur, Teikningar/skissur í leir og textíl, er óður til skissunnar, upphafsins og tilraunanna, þar sem hugmyndirnar eru frjálsar og flæða óhindrað úr einu í annað. Vinnan hefst með skissum og teikningum, sem síðan færast af blaði og yfir í önnur efni. Skissur sem voru unnar á áratugagamlan bókhaldspappír eru yfirfærðar í leir og textíl með ólíkum aðferðum, allt frá einföldum og frumstæðum yfir í hátæknilegar. Afrakstur þessa ferlis eru hlutir sem endurspegla handverk, þekkingu og tækni, þar sem notagildið er stundum skýrt en stundum óljóst.

Aðgangur er ókeypis og allir velkomnir. 

Þá er einnig síðasti séns að sjá sýningunni Now Nordic í Hafnarhúsinu sem var sett upp í tilefni af HönnunarMars og er sýning á því nýjasta í norrænni samtímahönnun. Hönnunarteymið Adorno fékk til liðs við sig sýningarstjórar frá Danmörku, Svíþjóð, Noregi, Finnlandi og Íslandi sem leituðu uppi nýja hönnun í hverju landi fyrir sig.


Fyrirvari í Hafnarborg.                                                                                            mynd/Rut Sig

Hafnarborg                                                                                                              mynd/Rut Sig

Now Nordic                                                                                                      Mynd/Eyþór Árna

















yfirlit