20.6.2018

MANNABEIN – Lifandi sýning í anddyri HönnunarsafnsinsSunnudaginn 24. júní kl. 16:00 opnar sýningin Mannabein í Hönnunarsafni Íslands.

Mannabein
er afrakstur af sjálfskoðunarferli Torfa Fannars Gunnarssonar og leit hans að sátt við stöðu sína í heiminum ásamt því að finna samhljóm á milli ytri og innri raunveruleika.

Fagurfræði og skírskotanir í línunni opinberuðu sig í litlum skrefum í gegnum hönnunarferlið og í lokin var farið að glitta í tengingar við svarta galdur, suður ameríska plöntulækna, villta vestrið og austurlenskt myndmál. Saman skapa þessar tengingar samruna á milli Þeirra menningarheima sem tilkoma iðnbyltingarinnar hafði aðskilið.

Línan er prjónuð úr mjúkri bómull á handprjónavél. Hattarnir koma frá bæjunum Pisac og Chinchero í Perú. Spjótin eru rennd úr mahóní.

Torfi útskrifaðist með BfA gráðu í myndlist úr Gerrit Rietveld Academie í Amsterdam árið 2012 og var í starfsnámi hjá danska fatahönnuðinum Henrik Vibskov árið 2014. Hann hefur unnið að ýmsu síðan þá m.a. tónlistargerð. Þetta er fyrsta fatalína Torfa undir merkinu Mannabein.

yfirlit