19.9.2017

Sýningin Artek – Art & Technology opnar í Pennanum



Sýningin Artek – Art & Technology opnar í Pennanum í Reykjavík þann 21. september næstkomandi klukkan 17.00.  Sýningin stendur fram til 8. október.

Fjórar ungar hugsjónamanneskjur stofnuðu Artek í Helsinki árið 1935. Þetta voru arkitektarnir Alvar og Aino Aalto, listunnandinn Maire Gullichsen og listasagnfræðingurinn Nils-Gustav Hahl.

Tilgangurinn var „að selja húsgögn og stuðla að nútímalegu samfélagi með sýningum og annarri fræðslu.“ Þarna var markað upphaf eins óvenjulegasta og metnaðarfyllsta verkefnis sem um getur í húsgagnasögunni. Stofnendurnir hugsuðu sér Artek sem vettvang fyrir nútímalist, framleiðslu, innanhússhönnun og áróður.

Artek starfar enn í dag í róttækum anda stofnendanna, er frumkvöðull í nútímahönnun og þróun á nýjum vörum þar sem hönnun, arkitektúr og list mætast. Línan frá Artek samanstendur af húsgögnum, ljósum og smærri munum, hönnuðum af finnsku hæfileikafólki og leiðandi alþjóðlegum hönnuðum. Tærleiki, notagildi og ljóðrænn einfaldleiki einkennir munina.

Penninn var stofnaður í Reykjavík árið 1932 og varð fljótt leiðandi fyrirtæki í sölu ritfanga og bóka. Á níunda áratugnum færði Penninn út kvíarnar, fór að selja húsgögn og varð helsti söluaðili skrifstofu- og fyrirtækjahúsgagna á landinu. Í dag er Penninn með þrjú sýningarrými á Íslandi. Penninn og Artek hafa lengi átt í samstarfi og því liggur beint við að Artek sýni í húsakynnum þeirra. Tengsl Artek við Ísland eru þó víðfeðmari vegna þess að Alvar Aalto hannaði Norræna húsið í Reykjavík á árunum 1965-68 og hefur húsið verið búið húsgögnum og ljósum frá Artek nánast allar götur síðan.

Á sýningunni í Pennanum eru sígildir munir eftir Alvar og Aino Aalto, Ilmari Tapiovaara, Tapio Wirkkala og Yrjö Kukkapuro ásamt samtímahönnun eftir Ronan og Erwan Bouroullec, Hella Jongerius og Konstantin Grcic.

Á sýningunni má einnig kynna sér sýnishorn af efnum, teikningar, ljósmyndir og sögur um Artek og þá stuðningsaðila alls staðar að úr heiminum sem mótað hafa fyrirtækið.

















yfirlit