29.11.2016

Sýning | ALVARA kynnir USELESS, nýja fata- og fylgihlutalínu



ALVARA kynnir nýtt verkefni, fata- og fylgihlutalínuna USELESS, föstudagskvöldið 16. desember næstkomandi, á Fiskislóð 53 úti á Granda. Húsið opnar kl 20 og sýningin hefst á slaginu 20:30. Gjörningurinn mun standa yfir í 30 mínútur svo mikilvægt er að mæta tímanlega.


Sýningin verður í formi innsetningar þar sem hönnun, ljósmyndir og vídeó mætast í einni heild. Gefið verður út zine (smátímarit) í takmörkuðu upplagi sem allir sýningargestir fá að gjöf.



Ágústa Sveinsdóttir og Elísabet Karlsdóttir hjá ALVARA. Mynd: Ragna Margrét.

ALVARA er þverfaglegt hönnunarstúdíó þar sem vöruhönnuðurinn Ágústa Sveinsdóttir og fatahönnuðurinn Elísabet Karlsdóttir sameina krafta sína. Unnið er á mörkum vöru- og fatahönnunar og leitast er eftir að skapa nýjar og tilraunakenndar leiðir í efnisnotkun.

Horft er til nýrra áhersla samtímans hvað varðar umhverfismeðvitund. Hvaðan varan kemur og hvernig hún verður til er útgangspunkturinn fremur en notagildið eitt og sér.

USELESS byggir á nýtingu dýrmæts hráefnis sem lengi hefur farið að mestu leyti til spillis, Markmið verkefnisins er að skapa framleiðslumöguleika úr undanafurðum hreindýraveiða með sjálfbærni að leiðarljósi.


Nýja fata- & fylgihlutalínan verður kynnt 16. des, Fiskslóð 53, kl.20:00.

Fyrsta afsprengi USELESS er fata & fylgihlutalína úr hreindýraleðri. Innblástur línunnar er dreginn frá afslappaðri götutísku nútímakvenna sem kjósa að hafa þægindin í fyrirrúmi. Leður sem hráefni er sett í nýtt samhengi þar sem tvinnast saman áhrif frá hversdagslegum eiginleikum íþrótta- og vinnufatnaðs.

ALVARA
vill með hönnun sinni koma til móts við aukna eftirspurn samtímans eftir því að hönnunarfyrirtæki sýni samfélagslega ábyrgð í efnisvali og framleiðslu.

Hreindýr eiga sér stutta sögu á Íslandi. Þau eru aðkomudýr sem Umhverfisstofnun heldur uppi veiðistjórnun á til verndar náttúrunni. Nú í ár voru gefin út 1300 hreindýraveiðileyfi. Stórum hluta undanafurða af þeim dýrum sem eru veidd er undir venjulegum kringumstæðum fargað og aðeins kjötið nýtt.

USELESS
kemur í veg fyrir þessa sóun, nýtir efniviðinn sem myndi annars vera hent og eykur verðmæti afurðanna með tilkomu á nýjum íslenskum hönnunarvörum.





Hin dularfulla hljómsveit aYia mun draga fram nokkra tóna úr hyl sínum. Hljómsveitin spilaði sína fyrstu tónleika á Secret Solstice í sumar og í kjölfarið á Airwaves. Hljómsveitin komst nýverið á samning hjá hinu virta útgáfufyrirtæki Bedroom Community. Í þau fáu skipti sem aYia hefur spilað opinberlega hafa áhorfendur verið hnepptir í álög og yfirnáttúruleg stemmning ráðið ríkjum.

Að sýningunni koma margir aðilar, þar á meðal Húrra Reykjavík, Davines, Coolcos, Döðlur, Dóttir Management ofl.

Veitingar verða í boði Ölgerðarinnar og að sýningunni lokinni verður slegið upp partý fram á nótt.


 
Myndir: Anna Maggý
















yfirlit