9.9.2016

Sýning | Tilraun - leir og fleira í Hafnarborg



Föstudagskvöldið 26. ágúst kl. 20 verða tvær sýningar opnaðar í Hafnarborg. Haustsýning Hafnarborgar 2016, sýningin Tilraun – leir og fleira, í aðalsal safnsins og svo sýning sænska hönnuðarins Jenny Nordberg, 3 – 5 sekúndur – Hröð, handgerð framleiðsla, í Sverrissal Hafnarborgar þar sem hún mun flytja gjörning á opnuninni.

Sýningin Tilraun – leir og fleira er samtal sjónlista við leir þar sem vísað er í ólíka heima iðnaðar, lista, nytjalista og hönnunar. Þátttakendur sýningarinnar koma úr ólíkum starfstéttum sjónlista. Þeir nota allir leir í verkum sínum en voru gefin mismunandi orð til að vinna þau útfrá. Útkoman eru annarsvegar fullgerð verk á meðan önnur sýna rannsókn eða vinnuaðferð.

Sýnendur eru:

Aldís Bára Einarsdóttir
Anna Hallin
Bjarnheiður Jóhannsdóttir
Brynjar Sigurðarson
Búi Bjarmar Aðalsteinsson
Erna Elínbjörg Skúladóttir
Hanna Dís Whitehead
Hildigunnur Birgisdóttir
Daniel Durnin
Garðar Eyjólfsson
Gunnhildur Helgadóttir
Olga Bergmann
Páll Einarsson
Ragnheiður Ingunn Ágústsdóttir
Sigga Heimis
Sigrún Jóna Norðdahl
Sigurður Guðmundsson
Sigurður Hauksson
Sigurlína Margrét Osuala
Theodóra Alfreðsdóttir
Veronika Sedlmair.

Sýningarstjórn er í höndum hönnunartvíeykisins TOS sem skipað er þeim Hildi Steinþórsdóttur arkitekt og Rúnu Thors vöruhönnuði en hugmynd þeirra að sýningunni var valin úr innsendum tillögum síðastliðið haust þegar kallað var eftir tillögum að haustsýningu í safninu 2016.

Sýningarstjórarnir verða með sýningarstjóraspjall fyrir gesti Hafnarborgar laugardaginn 27. ágúst kl. 14.

Sýning og gjörningur Jenny Nordberg

Sýning og gjörningur sænska hönnuðarins Jenny Nordberg, 3 – 5 sekúndur – Hröð, handgerð framleiðsla tekur á hvernig neyslu og framleiðslu er háttað í dag og hvernig gera má betur í framtíðinni. Í gjörningi sínum í Hafnarborg setur hún upp framleiðsluferli þar sem hún lætur reyna á hvernig ólíkir þættir hins handgerða og fjöldaframleidda geta haldist í hendur.

Jenny Nordberg er iðnhönnuður búsett í Svíþjóð sem hefur hlotið viðurkenningar og lof sem framsækinn hönnuður á alþjóðavettvangi. Jenny staðsetur sig á milli myndlistar og hönnunar og leitast við að víkka út hugmyndir samtímans um hönnun og hönnuði. Verkefnið er styrkt af sænska sendiráðinu á Íslandi.

hafnarborg.is















yfirlit