27.6.2016

Sýning | Arkitektúr og Akureyri


Menningarhúsið Hof á Akureyri eftir Þórð Þorvaldsson hjá Arkþing í samstarfi við Arkitema í Danmörku.

Laugardaginn 21. maí opnar sýningin Arkitektúr og Akureyri í Listasafninu á Akureyri, Ketilhúsi. Á sýningunni er byggingarlist á Akureyri skoðuð í víðu samhengi og fjallað um byggingar sem ýmist hafa unnið í samkeppnum eða hlotið sérstakar viðurkenningar. Sýningin stendur til 28. ágúst.

Í amstri dagsins vill oft gleymast að hlutir og byggingar þess manngerða umhverfis sem við lifum og hrærumst í voru upphaflega hugmynd sem kviknaði í huga einhverrar manneskju. Sköpunarverk sem birtast okkur fullmótuð byrjuðu öll sem lítil hugmynd.

Söguleg nálgun er annar vinkill sýningarinnar og unnin með sérlegri aðstoð Minjasafnsins á Akureyri og Skipulagsdeildar Akureyrar. Þar má meðal annars sjá ljósmyndir af byggingum sem nú eru horfnar auk aðalskipulags í sögulegu samhengi.


Akureyrarkirkja eftir Guðjón Samúelsson.

Gestum á Arkitektúr og Akureyri gefst kostur á þátttöku í sýningunni með því að taka mynd af byggingu sem þeir vilja sýna. Myndirnar þarf að senda á netfangið listak@listak.is með efnistitlinum (subject) Arkitektur og upplýsingum um staðsetningu, götuheiti og númer ásamt nafni viðkomandi ljósmyndara. Myndirnar sem berast verða prentaðar og hengdar upp með tilvísun í staðsetningu. Þannig verður einn þáttur sýningarinnar breytilegur með þátttöku gesta eftir því sem sýningartíminn líður.

Sýningarstjórar: Helga Björg Jónasardóttir og Haraldur Ingi Haraldsson.

Sýningin stendur til 28. ágúst og verður opin þriðjudaga - sunnudaga kl. 12-17, en frá 1. júní kl. 10-17 daglega.















yfirlit