4.11.2015

Handverk og hönnun í Ráðhúsi Reykjavíkur



Á fimmtudaginn 5. nóvember verður sýningin Handverk og hönnun í Ráðhúsi Reykjavíkur opnuð.

Sýningin verður haldin dagana 5. til 9. nóvember og eru þátttakendur 58 talsins að þessu sinni.

Í kynningu segir: „Sem fyrr er gróskan og fjölbreytnin mikil og meðal þess sem hægt er að skoða á sýningunni í nóvember eru keramik, skartgripir, fatnaður, munir úr horni og beini, leðurvörur, textíll, barnafatnaður og trémunir.

Á sýningunni verða einnig afhent Skúlaverðlaunin -  verðlaun fyrir besta nýja hlutinn á sýningunni. Þessi verðlaun hafa verið afhent á sýningunni frá árinu 2008 og verða nú afhent í áttunda sinn.

Allir þátttakendur á nóvember sýningunni mega skila inn í samkeppnina. Hugmyndin er  að hvetja til nýsköpunar og vöruþróunar. Verðlaunin, sem styrkt eru af Samtökum iðnaðarins, verða afhent á opnunardeginum þann 5. nóv. af Almari Guðmundssyni, framkvæmdastjóra SI.
 
Þetta er í fjórtánda sinn sem HANDVERK OG HÖNNUN stendur fyrir og skipuleggur þennan viðburð en sýningin var fyrst haldin árið 2006. Þetta er einstakt tækifæri fyrir alla að kynna sér fjölbreytt íslenskt handverk, listiðnað og hönnun á einum stað. Það eru listamennirnir og hönnuðirnir sjálfir sem kynna vörur sínar á sýningunni.

Föstudag til mánudags er opið kl. 10-18 en fyrsta daginn er opið kl. 16-19. Aðgangur er ókeypis.

Hér er hægt að skoða kynningu á öllum þátttakendum í nóvember.
Viðburður á facebook.
 
















yfirlit