29.9.2015

Rán Flygenring sýnir í Spark Design Space



Fimmtudaginn 1. október kl.17:00 opnar sýning eftir Rán Flygenring, grafískan hönnuð, í Spark Design Space, Klapparstíg 33, Reykjavík.

Í kynningu segir:

„Flest börn teikna og finna í því gleði, leik og sálarró. Fólk hættir gjarnan að teikna á fullorðinsárunum og tjáir sig frekar með orðum í gegnum tungumálið og skrift.

Rán Flygenring hefur aldrei hætt að teikna. Undanfarin ár hefur hún ferðast um heiminn og skrásett lífið og tilveruna á lítil blöð.

Í sumar hefur Rán ferðast um Ísland og notið þess til hins ýtrasta. Aðallega hefur hún tekið ástfóstri við baðmenninguna sem á sér margar hliðar í íslensku samfélagi og náttúru.“

Afrakstur sumarsins verður nú kynntur í Sparki en um er að ræða 150 teikningar og nokkur þrívíð verk. Einnig verður sýnd stutt heimildarmynd eftir kvikmyndagerðamanninn Sebastian Ziegler sem ferðaðist með Rán í sumar.


Teikning eftir Rán, sjá fleiri á instagram.com/ranflygenring.

Rán Flygenring útskrifaðist sem grafískur hönnuður frá Listaháskóla Íslands árið 2009. Hún hefur notað hæfileika sína sem teiknari til þess að lifa því lífi sem hana langar til að lifa, er sífellt á ferðinni. Hún rýnir í umhverfið, þá aðallega fólkið, og hefur óendanlegan áhuga á mannlegri hegðun.

Rán sér gjarnan skoplegu hliðarnar á tilverunni, það er leikur í teikningunum og stíllinn er áreynslulaus og smitandi. Teikningarnar eru frásagnir af atburðum og aðstæðum sem Rán upplifir og þær bera það með sér að Rán er þátttakandi frekar en áhorfandi.

Spark er opið virka daga frá 10-18 og frá 12-16 á laugardögum.
Sýningin stendur til 1. desember.

www.sparkdesignspace.com















yfirlit