1.5.2015

Útskriftarsýning Listaháskóla Íslands 2015



Útskriftarsýning nemenda á BA stigi í myndlistardeild og hönnunar- og arkitektúrdeild opnaði laugardaginn 25. apríl kl. 14:00 í Listasafni Reykjavíkur, Hafnarhúsi. Þar sýna um 65 nemendur afrakstur þriggja ára krefjandi náms þar sem markmiðið hefur verið að skapa nemendum aðstöðu til að mennta sig sem listamenn og hönnuðir og gera þá reiðubúna til að takast á við víðtæk viðfangsefni á skapandi og gagnrýninn hátt.

Útskriftarsýning BA nema í hönnun, arkitektúr og myndlist við Listaháskólann vekur alltaf verðskuldaða athygli og fær gríðarlega aðsókn en um 14.000 manns leggja árlega leið sína í safnið á þeim tveimur vikum sem sýningin er opin.

Sýningarstjórar eru Guðfinna Mjöll Magnúsdóttir og Huginn Þór Arason. Sýningastjóraspjall verður sunnudaginn 3. maí kl. 15:00.

Á sýningunni í ár munu nemendur í myndlistardeild meðal annars sýna skúlptúra í anda forn-Grikkja, rafvædd málverk, handgerðan lystigarð, negatífu af pýramída og eigin túlkun á verkum sýningarinnar.

Gestum er boðið að skoða umbreytingarferli og rannsóknir vöruhönnunarnema þar sem sveppir hreinsa menguð landsvæði, tennur manna verða að dýrgripum, leitað er leiða til uppbyggingar á Gaza og íslenskt epli hefur verið fundið upp.

Fjölbreyttir og óvæntir tískuheimar nemenda í fatahönnun fá bæði að njóta sín á tískusýningu á fimmtudaginn 23. apríl í Hörpu og í sýningarsal Listasafnsins. Nemendur í grafískri hönnun sýna meðal annars myndskreytingar byggðar á  minningum manns með geðklofa, endurhönnuð tarotspil og nótnarskrift fyrir spunatónlist byggða á handskrift.

Nemendur í arkitektúr takast á við hugtakið „orkustöð“ þar sem þau skapa stað við þjóðveginn, hleðslustöð fyrir mannfólk, bifreiðar og önnur farartæki, sjoppu í sínu víðasta og opnasta samhengi þar sem tillit er tekið til fortíðar, framtíðar og náttúru.

Sýningin stendur til 10. maí og er opin daglega frá 10:00–17:00 og á fimmtudögum frá 10:00–20:00. Aðgangur er ókeypis og allir eru velkomnir. 
Hægt er að panta leiðsögn fyrir hópa í síma 590 1200.

Smelltu hér fyrir viðburðadagskrá

Viðburður á facebook















yfirlit