25.8.2014

Sýning á verkum Hjalta Karlssonar í Hönnunarsafninu



Sýning á verkum grafíska hönnuðarins Hjalta Karlssonar stendur frá 14. júní til 5. október 2014 í Hönnunarsafni Íslands Hjalti hlaut Torsten och Wanja Söderbergverðlaunin í nóvember á síðasta ári við hátíðlega athöfn í Gautaborg. Söderbergverðlaunin njóta mikillar virðingar og eru stærstu verðlaunin sem veitt eru norrænum hönnuði á hverju ári, að upphæð 1 milljón sænskra króna.

Hjalti rekur hönnunarfyrirtækið KarlssonWilker í New York sem á viðskiptavini um allan heim. Í umsögn dómnefndar Söderbergverðlaunanna segir: „Breið nálgun Hjalta Karlssonar á leturgerð, grafískri hönnun og sjónrænum samskiptum byggir á húmanískum og listrænum grundvelli. Verk hans spanna allt frá smáhlutum til heildstæðrar, umfangsmikillar grafískrar upplýsingamiðlunar. Frá tímaritssíðum til hreyfimynda, frá hönnun sýninga með fræðslugildi yfir í staðbundnar listinnsetningar – sjónrænt tungumál Hjalta Karlssonar í samtíma er markað bæði af klassískri menntun og íslenskri sagnahefð.“

Á sýningunni, sem kemur til Hönnunarsafnsins frá Röhsska, hönnunarsafni Svía í Gautaborg, verða meðal annars sýnd verk sem Hjalti vann sérstaklega fyrir þessa sýningu sem nú verður opnuð. Einnig verður þar til sýnis úrval hönnunar sem Hjalti hefur unnið frá því að hann útskrifaðist sem grafískur hönnuður árið 1992 og heimildamynd um Hjalta sem tekin var upp á síðasta ári.

Frá 1996 til 2000 vann Hjalti sem yfirhönnuður og listrænn stjórnandi hjá Stefan Sagmeister í New York. Þar hitti hann Jan Wilker. Árið 2000 stofnuðu þeir hönnunarfyrirtækið Karlssonwilker Design Studio og meðal fjölbreyttra viðskiptavina þeirra má nefna MTV, Wolf Gordon, tímaritið Time, Vitra húsgagnaframleiðandann, Puma, MINI bílframleiðandann, Guggenheim safnið og MoMA safnið í New York. Verkefnin hafa verið fjölbreytt og spanna allt frá mörkun fyrirtækja og viðskiptaímyndar, hönnunar vegvísa, hreyfigrafíkur, sýningarhönnunar, bókahönnunar, vefsíðuhönnunar, vöruhönnunar og auglýsingagerðar.

Meðal helstu verkefna: Mörkun og gagnvirk hönnun fyrir Vitra ID stólinn. Austur-Evróputúr vegna frumsýningar MINI coupe bílsins 2012. Hönnunarstjórn á upplýsingagrafík fyrir Bloomberg Businessweek (42 tölublöð). Ímyndarsköpun, leiðarvísar, vefhönnun og gagnvirk hönnun fyrir Museum of Moving Image. Mörkun og hreyfigrafík fyrir MTV sjónvarpsstöðina. Hönnunarstjórn og hönnun fyrir rit Al Gore, Our choice, sérútgáfa fyrir yngri kynslóðina. Upplýsingagrafík og forsíðuhönnun á Time tímaritinu, sérblað í lok árs, Top ten issue.

Árið 2003 gaf Princeton út bókina Tellmewhy, sem sagði frá fyrstu tveimur starfsárum Karlssonwilker, hönnuð af Hjalta og Jan en bókin hefur verið notuð sem kennslugagn í grafískri hönnun í skólum víða um heim.

Nánari upplýsingar á vef Hönnunarsafns Íslands.


Hjalti Karlsson - A Short Documentary 2013 from Torsten & Wanja Söderbergs pris on Vimeo.
















yfirlit