30.5.2014

Ljósmyndasýning Mapping Europe í Norræna húsinu



Ljósmyndasýningin Mapping Europe eftir sænsku listakonuna Katerina Mistal opnar í Norræna húsinu 31. maí og stendur til 29. júní. Myndlistarkonan Katerina Mistal býr og starfar í Stokkhólmi. Hún vinnur mikið með ljósmyndir og vídeólistaverk og í mörgum verka hennar má sjá svipuð viðfangsefni birtast aftur og aftur; náttúra, ókönnuð svæði og takmarkanir í landslagi. Katerina Mistal hefur áður sýnt hér á landi þegar hún var gestur á Listahátíð í Reykjavík 2009 með verkinu Riots.


Á sýningunni varpar listakonan fram spurningunni um stöðu manneskjunnar í landslaginu. Áhorfandinn sér ljósmyndir þar sem börn hafa raðað sér upp meðfram strandlengju og stendur frammi fyrir spurningunni um tengslin milli manneskju og umhverfis. Hvernig takmarkar landslagið menn og í hverju felast landamæri og höft? Sænska listakonan Katerina Mistal hefur um árabil leitast við að kalla fram þessar spurningar í verkum sínum.

Í ljósmyndaröðinni Mapping Europe notast hún við börn og náttúru til að sýna bæði áþreifanleg og abstrakt landamæri. Myndir hennar eru iðulega teknar við ystu mörk álfunnar, strendur sem marka landamæri Evrópu gagnvart öðrum heimsálfum og börnin sem birtast á þeim búa í nágrenninu. Landamærin eru landamæri þessa tilteknu barna. Hver er staða þeirra í landslaginu sem þau birtast í? Hvernig birtist heimsálfan Evrópa okkur sem táknmynd þjóðríkja og menningarlegrar sjálfsmyndar? Ljósmyndirnar birta glögglega áhuga listakonunnar á áþreifanlegum og óaþreifanlegum höftum og takmörkunum sem finna má innra með mönnum sem ytra í formi umhverfis, landamæra í náttúru og og á landakortum.

Áhugaverð ljósmyndasýning fyrir alla unnendur ljósmyndalistar. Frítt er inn á sýninguna og stendur hún til 29. júní.















yfirlit