30.5.2014

Sýningin Tölt opnar í Norræna húsinu



Sýningin Tölt opnar í Nærræna húsinu 31. maí en hún var fyrst sett upp í sýningarrými Norrænu sendiráðanna í Berlín, Fælleshus, sumarið 2013 á ári hestsins og að tilefni þess að heimsmeistarmót íslenska hestsins fór fram í Berlín á sama tíma. Íslenskum samtímalistamönnum og hönnuðum hefur verið gefinn laus taumur til að skapa og sýna listaverk sem innblásin eru af íslenska hestinum; fegurð hans og þokka; litum og örlögum.

Íslenski hesturinn ber á baki sér ríkulega menningararfleifð og er stór hluti þess hvernig Íslendingar skilgreina sig sem þjóð. Hesturinn er gegnheilt einkenni þjóðararfsins - hvort sem hann er í lausagöngu á hálendinu, taminn til að vinna verkin og bera okkur á bakinu eða fluttur á nýjan stað þar sem hann skeiðar í ókunnu umhverfi. Hesturinn þjónar einnig sem djúpstæð tenging við náttúru landsins og er óendanleg uppspretta andagiftar, sem brýst út í menningarsögu Íslands, skáldskap og samtímalist.

Íslenskum samtímalistamönnum og hönnuðum hefur verið gefinn laus taumur til að skapa og sýna listaverk sem innblásin eru af íslenska hestinum; fegurð hans og þokka; litum og örlögum. Listamennirnir koma skynjun sinni og sýn, innblásinni af íslenska hestinum til skila með margvíslegu móti í mismunandi efnivið.

Sýningin var fyrst sett upp í sýningarrými Norrænu sendiráðanna í Berlín, Fælleshus, sumarið 2013 á ári hestsins og að tilefni þess að heimsmeistarmót íslenska hestsins fór fram í Berlín á sama tíma.

Sýningin sló í gegn og varð sú aðsóknarmesta í sögu Fælleshus.

Á sýningunni eru verk eftir íslenska listamenn, ljósmyndara og fatahönnuði. Sýningarstjóri sýningarinnar er Ragna Fróðadóttir en sýningarumsjón er í höndum Birtu Fróðadóttir sem nýverið flutti til Íslands frá Berlín.

Tekið verður ofan fyrir hinum þekkta listamanni Birgi Andréssyni (1955-2007), fulltrúa Íslands á Feneyjatvíæringnum árið 1995. Á sýningunni verða verk þar sem Birgir kannar tengsl sjónrænnar skynjunar og tungumálsins með munnlegum hestalýsingum.

Þátttakendur í sýningunni: Hrafnkell Birgisson - Gígja Einarsdóttir -Gréta Vilborg Guðmundsdóttir - Kristín Garðarsdóttir - Ásta Guðmundsdóttir - Dögg Guðmundsdóttir - Una Lorenzen - Rut Sigurðardóttir - Spessi - Benni Valsson - Andersen & Lauth - Erna Einarsdóttir - Jör by Guðmundur Jörundsson - Mundi-Þorkell Sigurður Harðarson..

Sýningin er í ytri sýningarsal Norræna hússins og opnar 31. maí og stendur til 29. júní 2014.















yfirlit