8.5.2014

Sýningarleiðsögn um sýninguna Shop Show í Hafnarborg



Róshildur Jónsdóttir vöruhönnuður tekur þátt í leiðsögn um sýninguna Shop Show og ræðir við gesti um verk sín sunnudaginn 11. maí kl. 15.

Róshildur starfar undir nafninu Hugdetta ásamt Snæbirni Stefánssyni vöruhönnuði. Hún er einkum þekkt fyrir hönnun og vöruþróun á leikföngunum Skepnusköpun / Something Fishy úr fiskibeinum, en Skepnusköpun varð til eftir rannsókn Róshildar á nýtingu íslenskra dýraafurða fyrr á öldum.

Á sýningunni Shop Show mætast umhverfismál, menning og nýsköpun á kröftugan og nýstárlegan hátt. Sýnd er norræn samtímahönnun þar sem sjónum er beint að sambandi framleiðslu og neyslu með áherslu á rekjanleika og siðferðisspurningar er varða umhverfi og náttúru. Á sýningunni eru hönnunarvörur eftir framúrskarandi hönnuði sem setja nú mark sitt á norræna samtímahönnun, en á meðal þátttakenda eru íslensku hönnuðirnir Róshildur Jónsdóttir og hönnunarteymið Vík Prjónsdóttir.

Sýningin var opnuð á HönnunarMars en henni lýkur nú um helgina. Síðasti sýningardagur er sunnudagurinn 11. maí. Sýningin er opin frá 12-17 alla daga fram að sýningarlokum og til kl. 21 fimmtudaginn 8. maí.















yfirlit