2.5.2014

Útskriftarsýning Listaháskóla Íslands



Útskriftarsýning bakkalárnema í myndlistardeild og hönnunar- og arkitektúrdeild opnar laugardaginn 26. apríl kl. 14:00 í Listasafni Reykjavíkur, Hafnarhúsi. Tískusýning útskriftarnema í fatahönnun við hönnunar- og arkitúrdeild Listaháskóla Íslands verður fimmtudagainn 24. apríl kl. 18:00.

Þar sýna um 65 nemendur afrakstur þriggja ára krefjandi náms, undir leiðsögn framúrskarandi listamanna og hönnuða, þar sem markmiðið hefur verið að skapa nemendum aðstöðu til að mennta sig sem listamenn og hönnuðir og gera þá reiðubúna til að takast á við víðtæk viðfangsefni á skapandi og gagnrýninn hátt.

Sýningin er afar fjölbreytt en þar má nefna sem dæmi: Harðkjarnaskopparabolta, klingjandi skólabjöllur, endurgerð á andláti heimspekings, steyptan skúlptúr sem liðast um sýningarsalinn, duldýrasafn og litabók sem býður lesandanum upp á að lita þekkt listaverk er meðal þess sem nemendur í myndlistardeild bjóða upp á.

Gestum er boðið inn í vaxtar- og umbreytingarferli á rannsóknarstofu vöruhönnunarnema þar sem sveppir vaxa sem byggingarefni, skordýr umbreytast í mannamat og skartgripir verða til úr ryki svo fátt eitt sé nefnt.

Töfraheimur tískunnar nýtur sín jafnt á tískusýningu á fimmtudagskvöldinu og í sýningarsal Listasafnsins. Nemendur í grafískri hönnun búa til nýjar leturgerðir, Grandalanda, verndargripi, sýningu um danstónlist fyrri tíma, sérhæfða útfararþjónustu og margt margt fleira.

„Íslenski draumurinn“ er verkefni arkitektúrnema sem nema land við tilbúna götu sem liggur milli auðra lóða í Reykjavík. Nemendur hafa gert módel af húsum sem reyna að uppfylla drauma raunverulegra einstaklinga og fjölskyldna sem nemendurnir hafa tekið viðtöl við. Saman mynda öll módelin heilsteypta götumynd á sýningunni.

Útskriftarsýnin Listaháskólans vekur alltaf verðskuldaða athygli og fær gríðarlega aðsókna en um 14.000 manns leggja leið sína í safnið á þeim tveimur vikum sem sýningin er opin. Sýningastjóraspjall verður fimmtudaginn 1. maí kl. 15:00.

Sýningastjórar eru Ingibjörg Sigurjónsdóttir og Anna Hrund Másdóttir.

Sýningin stendur til 11. maí og er opin daglega frá 10:00- 17:00 og á fimmtudögum frá 10:00 - 20:00. Aðgangur er ókeypis og allir eru velkomnir. Hægt er að panta leiðsögn fyrir hópa í síma 590 1200.


TÍSKUSÝNING ÚTSKRIFTARNEMA Í FATAHÖNNUN 2014

Tískusýning útskriftarnema í fatahönnun við hönnunar- og arkitúrdeild Listaháskóla Íslands verður fimmtudagainn 24. apríl kl. 18:00 í Listasafni Reykjavíkur, Hafnarhúsi. Á tískusýningunni sýna nemendur afrakstur þriggja ára háskólanáms í fatahönnun. Hver nemandi sýnir 6-8 alklæðnaði fyrir konur.

Útskriftarnemendurnir eru:

Áslaug Sigurðardóttir
Berglind Óskarsdóttir
Drífa Thoroddsen
Ragna S. Bjarnadóttir
Rakel Jónsdóttir
Svava Magdalena Arnarsdóttir

Erlendur prófdómari að þessu sinni er Michael Berkowitz sem hefur unnið fyrir Calvin Klein, Nike o.fl. Aðgangur er ókeypis og allir velkomnir.















yfirlit