28.4.2014

Fyrsta útskriftarsýning MA nema í hönnun og myndlist



Laugardaginn 12. apríl kl. 15:00 opnar fyrsta útskriftarsýning meistaranema í hönnun og myndlist frá Listaháskóla Íslands í Gerðarsafni, Kópavogi.


Alþjóðlegt meistanám í myndlist og hönnun hófst í Listaháskóla Íslands haustið 2012 og er þetta því fyrsti árgangurinn sem setur fram MA- verk sín á sérstakri útskriftarsýningu. Á sýningunni má sjá afrakstur tveggja ára háskólanáms á meistarastigi þar sem hönnuðir og myndlistarmenn hafa fengið tækifæri til að efla þekkingu og þróa rannsóknir sínar á viðkomandi fagsviðum. Áhersla er lögð á skapandi og greinandi hugsun sem nýtist við framsækin verkefni á fagsviðum hönnunar og myndlistar á Íslandi.

Í MA námi í myndlist er nemendum skapaður vettvangur til að dýpka og auka þekkingu sína á sviði myndlistar, styrkja persónulega sýn og tengja listsköpun sína við fræðilegar forsendur fagsins. Í MA námi í hönnun er sjónum beint að aðkallandi viðfangsefnum í samtímanum en yfirlýst markmið hönnunar í dag er að leiða hugsunina, breyta hugarfari og hafa jákvæð áhrif á það hvernig fólk lifir.

Það eru tíu nemendur sem hér leggja fram verk sín til opinberrar sýningar og MA varnar; þrír í hönnun og sjö í myndlist. Þau eru: Ásgeir Matthíasson, Björg Vilhjálmsdóttir og Gréta Guðmundsdóttir af MA námsbraut í hönnun. Halldór Ragnarsson, Katla Rós Völu- og Gunnarsdóttir, Kristín Helga Káradóttir, Kristín Gunnarsdóttir, Pia Antonsen Rognes, Ragnar Már Nikulásson og Rán Jónsdóttir af MA námsbraut í myndlist.

Fjölbreytt verk

Verkin á sýningunni eru mjög fjölbreytt en þar má m.a. sjá hvernig má leysa upp ósjálfbært og mengandi kerfi þar sem líftími neytendaumbúða eru settar í samhengi við líftíma vöru, í þessu tilfelli mjólkur, boðið er uppá nýjar leiðir til að mynda tengsl við umhverfið og minnka sóun með því að tengja sig nærumhverfi í gegnum mat og samneyti, ímynd íslenska hestsins er rýnd og þáttur mannsins í sköpulagi hans myndgerður, fjallað er um missi, minnið og ljósmyndina sem aðferð til að endurskapa minningar, rannsóknir gerðar á ummerkjum tungumálsins í málverkum sem leika á mörkum abstraktsjónar og táknrænu og talað er í gegnum efnið í skúlptúrum sem standa sem hlutgerving tilfinninga. Safnið verður að sviðsmynd fyrir gjörning og annað verk leitast við að opna augu áhorfandans fyrir þeirri staðreynda að listin er alls staðar og teygir sig handan nokkurs safnarýmis. Brugðið er á leik með möguleika og ómöguleika tækninnar og tilraunir með framköllun ljósbrota í rýmisinnsetningu fær áhorfendur til að leiða hugann að eðli heimsins.

Málþing útskriftarnema um verk sín verður haldið sunnudaginn 4. maí kl. 13:00 í Gerðarsafni.

Sýningin stendur til 11. maí og er opin á opnunartíma safnsins þriðjudag- sunnudags kl. 11:00- 17:00. Aðgangur er ókeypis og allir eru velkomnir.

Sýningarstjóri er Birta Guðjónsdóttir.















yfirlit