Tehús verður opið í Sparki frá 5. – 20. mars næstkomandi. Varla er hægt
að tala um sér-íslenskt tehús en verkefnið er einmitt leit og mögulega
hornsteinn að íslensku tehúsi. Hönnunarteymið Attikatti stendur að
tehúsinu og 11 hönnuðir taka þátt í samsýningu tengdu tehúsinu.
Um er að ræða rými hannað út frá tei af hönnunarteymi Attikatta. Þar má kynnast tei í hinum ýmsu birtingarmyndum og formum sem ekki teljast hefbundin. Teið mun ekki einungis halda sig í sínum hefbundna bolla heldur einnig gleðja augu, eyru og hjarta. Hönnunarteymið hefur meðal annars safnað íslenskum te-sögum sem efnivið í tehúsið.
Suðupottur tehússins er sýning 11 hönnuða og samstarfsaðila þeirra á vörum og þjónustu tengdu tei sem teygir anga sína og ilm frá Klapparstíg og út í Laugardalslaug þar sem boðið verður upp á tepotta til að mýkja húðina og styrkja sálina. Sýnendur eru þau Eygló Margrét Lárusdóttir, Guðjón Tryggvason, Guðrún Lilja Gunnlaugsdóttir, Hildigunnur Gunnarsdóttir, Hildur Steinþórsdóttir, Hlutagerðin, Siggi Odds, Snæfríð Þorsteins og Þórunn Árnadóttir í samstarfi við Ólöfu Erlu Bjarnadóttur.
Tepottarnir í Laugardalslaug verða opnir sunnudaginn 2. mars og laugardaginn 29. mars klukkan 13:00 -15:00.
Attikatti er hugmynda og viðburðarsmiðja hönnuðanna Báru Kristgeirsdóttur, Hönnu Dísar Whitehead, Hönnu Jónsdóttur og Rúnu Thors.
Samstarfs- og styrktaraðilar verkefnisins eru Tefélagið, Tehúsið, Te og Kaffi, Kidka, Svandís Kandís, Oddi, Sandholt bakarí, Laugardalslaug, Fablab Reykjavík, Hörður Sveinsson ljósmyndari og Promens.