Nú fer hver að verða síðastur að skoða í Hönnunarsafni Íslands þann hluta íslenskrar hönnunarsögu sem hefst með innreið módernismans í íslenska híbýlamenningu upp úr 1930 og áhrifa hans fram yfir 1980. Síðasti sýningardagur er 5. janúar 2014.
Á sýningunni eru munir úr safneign safnsins og annarra menningarminjasafna en einnig koma til óvænt kynni við hluti sem varðveist hafa í heimahúsum. Sýningarstjórar eru Elísabet V. Ingvarsdóttir og Arndís S. Árnadóttir.
Á sýningunni má líta vel þekkta hönnunargripi, sem öðlast hafa sess með þjóðinni sem tímamótaverk. Einnig eru þar óvæntir hlutir sem greina má jafnt í verkum nafnlausra smiða sem og framsækinna húsgagna- og textílhönnuða á síðustu öld. Skoðuð eru mörk hefða og nútíma í húsgagnagerð, tilkoma nýrra efna líkt og krossviðs og krómaðs stáls, notkun járns og nýstárlegra þráða.
Hægt er að sjá verk fyrstu íslensku húsgagnateiknaranna, en einnig einföld húsgögn eftir húsgagnaarkitekta sjötta og sjöunda áratugarins, klædd íslenskum áklæðum. Vakin er athygli á merku brautryðjendastarfi íslenskra kvenna við nútíma áklæða- og teppagerð eftir 1945 og nýbreytni tauþrykksins um 25 árum síðar.
Nánari upplýsingar um sýninguna
hér.
Hönnunarsafn Íslands verður opið um helgina frá kl. 12-17.