19.11.2013

Fjölskylduleiðsögn og smiðja | Stólaleikur í Hönnunarsafninu



Sunnudaginn 24. nóvember kl.14 - 15.30 verður Þóra Sigurbjörnsdóttir, fulltrúi hjá Hönnunarsafni Íslands, með fjölskylduleiðsögn um sýninguna Óvænt kynni. Börn, og fullorðnir sem fylgja þeim, fá frítt inn. Verið velkomin!

Byrjað verður á rannsóknarleiðangri um sýninguna þar sem húsgögnin verða gaumgæfð. Stólar verða skoðaðir frá ýmsum sjónarhornum, frá hlið, að ofan og jafnvel kíkt undir þá. Spáð verður í mjúk efni og hörð form. Hafa stólarnir eitthvað að segja okkur? Skiptir máli úr hvaða efni þeir eru gerðir? Hvaða form er að finna í stólunum? Hvaða litir eru í þeim? Getur stóll verið höfðinglegur? En fjörlegur? Getur hann verið leiðinlegur eða fyndinn?  Eftir rannsóknarleiðangurinn sköpum við okkar eigin stól sem unninn verður í pappír,vír og annað endurnýtanlegt efni.

Sýningarstjórar sýningarinnar Óvænt kynni eru Arndís S. Árnadóttir og Elísabet V. Ingvarsdóttir.

Hönnunarsafn Íslands
er opið alla daga frá 12—17 , lokað mánudaga. Kraum – safnverslunin, er opin á opnunartíma safnsins.















yfirlit