8.11.2013

Sýningarleiðsögn | „Óvænt kynni“ í Hönnunarsafninu



Næstkomandi sunnudag 10. nóvember kl. 14:00 mun Arndís S. Árnadóttir ganga um sýninguna Óvænt kynni ásamt Þorbjörgu Þórðardóttur textíllistakonu, þar sem áhersla verður lögð á textílþrykk og Gallerí Langbrók. Arndís er sýningarstjóri sýningarinnar ásamt Elísabetu V. Ingvarsdóttur.

Með stofnun Gallerís Langbrókar árið 1978 sköpuðu nokkrar konur sem unnu með textíl sér vettvang til að koma verkum sínum á framfæri. Textílþrykkið seldist vel og var ýmist notað til að prýða veggi, í gluggatjöld, dúka, púða og rúmfatnað svo aðeins nokkur dæmi séu tekin. Gallerí Langbrók hætti rekstri sumarið 1985. Þær sem unnu við textílþrykk í Gallerí Langbrók á árunum 1978─1985 voru Aðalheiður Skarphéðinsdóttir, Ásrún Kristjánsdóttir, Guðrún Auðunsdóttir, Guðrún Marinósdóttir, Jóhanna Vigdís Þórðardóttir, Ragna Róbertsdóttir, Steinunn Bergsteinsdóttir og Þorbjörg Þórðardóttir.

Sýningin, Óvænt kynni, endurspeglar afmarkaðan hluta íslenskrar hönnunarsögu sem hefst með innreið módernismans í íslenska híbýlamenningu upp úr 1930 og áhrifa hans fram yfir 1980. Skoðuð eru mörk hefða og nútíma í húsgagnagerð, tilkoma nýrra efna líkt og krossviðs, notkun járns og nýstárlegra þráða. Vakin er athygli á starfsemi vefstofanna þar sem handofin klæðagerð af ýmsum toga dafnaði. Á sama hátt kallar textílþrykk kvennanna í Gallerí Langbrók frá áttunda áratugnum fram minni um að margt í samtímanum bergmáli oft það sem á undan kom.

Þorbjörg Þórðardóttir hefur tekið þátt í fjölda sýninga hér á landi sem erlendis. Hún var við nám í Myndlista- og handíðaskólanum 1968-1972. Að því loknu hélt hún til náms við Konstfack skólann í Stokkhólmi, 1972-1974. Hún kenndi við Myndlista-og handíðaskóla Íslands frá 1975-1987 og hefur komið að stofnun ýmissa gallería. Þorbjörg hefur unnið ötullega að félagsmálum og setið í stjórn og verið formaður Textílfélagsins um tíma.

Hönnunarsafn Íslands
er opið alla daga, nema mánudaga frá 12 – 17.















yfirlit