7.11.2013

Ný hugmyndasmiðja fyrir börn á Kjarvalsstöðum



Hugmyndasmiðja fyrir börn á öllum aldri verður opnuð á Kjarvalsstöðum, fimmtudaginn 7. nóvember kl. 16. Markmiðið með henni er að bæta enn frekar aðgengi og áhuga hjá yngri gestum safnsins. Guðfinna Mjöll Magnúsdóttir er hugmyndasmiður og hönnuður að smiðjunni en þar er einnig veggverk eftir listamanninn Huginn Þór Arason.

Guðfinna hefur lagt áherslu á að skapa sérstæðan dvalastað fyrir gesti á öllum aldri þar sem boðið verður upp á fjölbreytta möguleika til að upplifa og fræðast. Þeirra á meðal er svokallað Innblástursbókasafn sem er vaxandi safn forvitnilegra bóka sem fjölmargir listamenn og hönnuðir hafa sérstaklega mælt með til að kveikja nýjar hugmyndir og innblástur. Safninu er ætlað að örva ímyndunaraflið og veita innsýn í í heim starfandi listamanna.

Hugmyndasmiðjan er einnig vettvangur fyrir eigin sköpun en þar verður m.a. boðið upp á blöð og blýanta til að teikna upp sínar eigin hugmyndir og vangaveltur svo má líka bara láta hugan reika.

Í vetur verður boðið upp á spennandi dagskrá í Hugmyndasmiðjunni. En þar verða m.a. haldnar svokallaðar örsmiðjur þar sem fjölskyldufólk getur spreytt sig á hinum ýmsu listformum undir leiðsögn listamanna, nánar auglýstar síðar. Hugmyndasmiðjan er einnig vettvangur fyrir yngri gesti til að fræðast um þær fjölbreyttu sýningar sem eru í gangi í Listasafni Reykjavíkur hverju sinni.

Allir eru velkomnir á opnun Hugmyndasmiðjunnar á fimmtudaginn, 7. nóvember kl. 16.















yfirlit