1.1.2014

Sýning á verkum Rúnu - Sigrúnar Guðjónsdóttur í Hafnarborg



Laugardaginn 2. nóvember var opnuð í Hafnarborg sýning sem gefur innsýn í fjölbreyttan feril listakonunnar Rúnu - Sigrúnar Guðjónsdóttur. Á sýningunni, sem ber titilinn Dvalið hjá djúpu vatni, eru verk fá öllum listferli Rúnu (f. 1926), þau elstu frá því um 1950 en þau nýjustu frá þessu ári, 2013. Rúna hefur í gegnum tíðina unnið að listsköpun sinni með margvíslegum hætti. Sýningin hefur verið framlengd til 26. janúar.

Má þar nefna skreytingu leirmuna, myndir málaðar á stein- og postulínsflísar og efnismikinn japanskan pappír, bókaskreytingar og auglýsingagerð auk fjölda veggmynda fyrir opinberar byggingar sem hún vann oft í samstarfi við eiginmann sinn Gest Þorgrímsson. Þau hjón teljast á meðal frumkvöðla íslenskrar leirlistar og stofnuðu meðal annars leirbrennsluna Laugarnesleir árið 1947. Leirinn hefur ætíð skipað mikilvægan sess í list Rúnu enda eitt af því sem einkennir verk hennar rík efniskennd og áhugi á samspili efnis og myndrænnar útfærslu. Hæfileikar Rúnu og þekking á efniviðnum nýttust vel í hönnunarverkefnum sem hún tók að sér fyrir virt erlend hönnunarfyrirtæki eins og danska postulínsfyrirtækið Bing & Grøndahl.

Verk Rúnu í hina ýmsu miðla bera sterk höfundareinkenni og eru alltaf auðþekkjanleg. Maðurinn og mennskan eru áberandi yrkisefni en mjúk form og ljóðræna einkenna verkin. Áberandi myndefni eru kvenfígúrur, fiskar, fuglar, fjöll og fjara, speglanir og óræð form, en fíngerðar og léttar teikningar hennar bera ótvíræðum hæfileikum vitni.

Hún stundaði nám við Myndlista- og handíðaskóla Íslands og Konunglegu listaakademíuna í Kaupmannahöfn. Rúna á að baki fjölda einkasýninga og hefur tekið þátt í fjölmörgum samsýningum auk þess sem hún sýndi mikið ásamt eiginmanni sínum og voru þau þekkt sem tvíeykið Gestur og Rúna. Rúna starfar enn að list sinni og má sífellt sjá nýja þróun í verkum hennar, enda er hún óhrædd við að gera tilraunir með myndmál og vinnuaðferðir og sköpunarþráin jafnsterk og lifandi og áður.

Sýningarnefnd skipa Brynhildur Pálsdóttir, Ólöf K. Sigurðardóttir og Þorbjörg Br. Gunnarsdóttir.

Sjá nánar um sýninguna hér.

Dagskrá:
Sýningarstjóraspjall fimmtudaginn 21. nóvember kl. 20
Þorbjörg Br. Gunnarsdóttir ræðir við gesti um sýninguna.

Sýningarstjóraspjall sunnudaginn 1. desember kl. 15
Þorbjörg Br. Gunnarsdóttir ræðir við gesti um sýninguna.

Sunnudaginn 12. janúar kl. 15
Rúna - Sigrún Guðjónsdóttir þátt í leiðsögn og ræðir við gesti um yfirlitssýningu á verkum hennar.















yfirlit