18.10.2013

Sýningarstjóraspjall | Óvænt kynni



Sunnudaginn 20. október kl. 14:00 verður Elísabet V. Ingvarsdóttir með leiðsögn og spjallar við gesti um sýninguna Óvænt kynni í Hönnunarsafni Íslands. Elísabet er sýningarstjóri sýningarinnar ásamt Arndísi S. Árnadóttur.
Sýningin hefur verið framlengd til 5.janúar 2014.

Óvænt kynni endurspeglar afmarkaðan hluta íslenskrar hönnunarsögu sem hefst með innreið módernismans í íslenska híbýlamenningu upp úr 1930 og áhrifa hans fram yfir 1980. Á sýningunni eru munir úr safneign Hönnunarsafns Íslands og annarra menningarminjasafna en einnig koma til óvænt kynni við hluti sem varðveist hafa í heimahúsum.

Á þessu tímabili urðu miklar breytingar á íslenskum heimilum eins og sjá má til dæmis í húsgögnum, textílum og lampagerð. Í skjóli hafta á sjötta og sjöunda áratugnum náði íslensk húsgagnaframleiðsla ákveðnum hápunkti og hönnuðir mörkuðu sér þar skýrt hlutverk. Skoðuð eru mörk hefða og nútíma í húsgagnagerð, tilkoma nýrra efna, líkt og krómaðs stáls, sem og notkun járns og nýstárlegra þráða. Vakin er athygli bæði á starfsemi nokkurra vefstofa þar sem handofin áklæðagerð dafnaði í undanfara verksmiðjuframleiðslu og á frumkvöðlum í textílþrykki á áttunda áratugnum.

Elísabet V. Ingvarsdóttir er með meistarapróf í hönnunarsögu frá Kingston University í London og BA gráðu í í innanhússarkitektúr frá The North London Polytechnic sem hún starfaði við í mörg ár. Elísabet er með kennsluréttindi frá Háskóla Íslands. Hún hefur síðustu ár kennt við hönnunarbraut Tækniskólans og verið stundakennari við Listaháskóla Íslands og í diplómanámi Myndlistaskólans í Reykjavík. Um skeið skrifaði hún dóma um hönnunarsýningar og hefur undanfarin ár sýningarstýrt sýningum um hönnun. Má þar nefna farandsýninguna Íslensk samtímahönnun sem sett var upp í sex löndum á árunum 2009-2011 og ásamt Önnu Jóa sýningunni Nautn og notagildi - myndlist og hönnun á Íslandi, sumarsýningu Listasafns Árnesinga 2012.

Verið velkomin!

Hönnunarsafn Íslands er opið frá 12- 17 alla daga, lokað á mánudögum.















yfirlit