11.10.2013

Sýning | Veggspjöld eftir Sigga Eggertsson í Spark



Sýning Sigga Eggertssonar SKVÍS opnar 11. október kl. 20 í Spark Design Space, Klapparstíg 33 og stendur til 16. nóvember. Sýningin samanstendur af nýjum veggspjöldum eftir grafíska hönnuðinn Sigga Eggertsson.

Veggspjöldin eru sérstök að því leiti að þau raðast upp í símunstur og því hægt að nota sem veggfóður. Það má raða veggspjöldunum saman í margra metra verk eða einfaldlega setja þau upp sem stök veggspjöld. Yfirbragð verkanna mun svo sannarlega lífga upp á skammdegið.

Siggi Eggertsson er fæddur árið 1984. Átján ára hóf hann nám í grafískri hönnun við Listaháskóla Íslands. Hann fluttist til London strax að námi loknu og starfaði þar uns hann fluttist Berínar árið 2008. Árið 2006 valdi tímaritið Print Magazine Sigga sem eina af helstu vonarstjörnum hönnunar undir 30 ára aldri. 2008 var hann valinn besti hönnuðurinn af New York Art Directors Club's Young Guns og 2012 hlaut hann hin virtu gullverðlaun The Art Directors Club of Europe Awards (The ADC*E Awards). Hann hefur starfað meðal annars fyrir Nike, Microsoft, H&M, Stüssy, Norton, Playstation, Coca Cola, Nokia og New York Times.

Nánari upplýsingar um sýninguna og texta um verk Sigga Eggertssonar eftir Godd má finna á vefsíðu Spark Design Space, hér.















yfirlit