30.8.2013

Sýning | Vísar – húsin í húsinu



Föstudaginn 30. ágúst kl. 20.00 verður opnuð í Hafnarborg sýningin Vísar – húsin í húsinu. Á sýningunni eru ný verk eftir myndlistarmennina og arkitektana Elínu Hansdóttur (f.1980), Ilmi Stefánsdóttur (f. 1969), Marcos Zotes (f. 1977) og Theresu Himmer (f. 1976). Sýningarstjóri er Anna María Bogadóttir en hugmynd hennar að þessari sýningu var valin úr innsendum tillögum síðastliðið haust þegar kallað var eftir tillögum að haustsýningu 2013 í Hafnarborg.

Vísar – húsin í húsinu er sýning þar sem staður og rými fá nýja merkingu meðal annars með vísan í söguna og mótun umhverfis. Verkin enduspegla umbreytingar og afjúpa margslungið samhengi listsköpunar og umhverfismótunar. Um leið eru tengsl sögu og samtíma ljós í sýningarrými sem er í stöðugri umbreytingu og allt í senn; einka og opinbert, raunverulegt og ímyndað, varanlegt og hverfult.

Listamennirnir eiga það sameiginlegt að vinna á mörkum myndlistar og arkitektúr þó þeir eigi að öðru leiti að baki ólíkan feril. Elín Hansdóttir býr og starfar í Berlín og er á meðal þeirra íslensku listamanna sem vakið hafa mesta athygli á alþjóðavettvangi myndlistar. Theresa Himmer, frá Danmörku, og Marcos Zotes, frá Spáni, sem bæði búa og starfa hér á landi eru með bakgrunn í arkitektúr en starfa jafnframt að myndlist. Ilmur Stefánsdóttir hefur haldið fjölda sýninga bæði hér á landi og alþjóðlega og á einnig að baki afar farsælan feril sem leikmyndahönnuður. Við opnun sýningarinnar flytur Ilmur gjörninginn Konan í húsinu í húsinu ásamt Davíð Þór Jónssyni tónlistarmanni.

Sýningarstjóri haustsýningarinnar 2013 er Anna María Bogadóttir menningarfræðingur og arkitekt. Hún lauk framhaldsnámi í menningarfræði og upplýsingatækni í Kaupmannahöfn og starfaði í tæpan áratug við menningar- og sýningastjórn áður en hún hélt til New York þar sem hún lauk M.Arch gráðu frá Columbia University árið 2010. Hún hefur unnið á arkitekta- og borgarhönnunarstofum í New York og Miami og fæst nú við hönnun, ráðgjöf og rannsóknir á borgarumhverfi auk kennslu við Listaháskólann og Háskóla Íslands.

Mynd sem fylgir frétt er af verki Theresu Himmer.















yfirlit