15.5.2013

Sýningarstjóraspjall | Hellisgerði, blóma og skemmtigarður



Sýningin Hellisgerði, blóma og skemmtigarður, stendur til 17. júní í Sverrissal Hafnarborgar. Hellisgerði í Hafnarfirði er einn elsti opinberi skrúðgarður á Íslandi. Hann var fyrst opnaður árið 1923 og var þá ætlað að vera blóma og skemmtigarður í ört vaxandi bæ. Sýningarstjórar eru Berglind Guðmundsdóttir landslagsarkitekt og Magnea Guðmundsdóttir arkitekt.

Á sýningunni í Hafnarborg verður mannlífið í garðinum skoðað í spegli tímans, sjónum beint að gróðri og stemningu á ólíkum tímum. Sýndar verða teikningar og uppdrættir, ljósmyndir, kvikmyndir og gripir sem tengjast garðinum.

Segja má að Hellisgerði hafi verið fyrsti íslenski landslagsgarðurinn sem felldur var að náttúrulegu umhverfi og mótaður samkvæmt því. Við hönnun og skipulagningu garðsins hefur verið haft að leiðarljósi að varðveita upprunalegt landslag svæðisins eins og kostur er og hefur þá sérstaklega verið hugað að því að hraunið fái notið sín. Auk þess að vera ætlað að varðveita óraskaðar minjar um hið sérkennilega bæjarstæði Hafnarfjarðar var garðurinn ekki síst hugsaður sem staður fyrir bæjarbúa að njóta ánægju og hvíldar í tómstundum. Á níutíu ára tímabili hafa bæjarbúar og aðrir notið þar fagurs umhverfis og viðburða af ýmsu tagi og þó lífshættir hafi breyst með árunum eiga upphafleg markmið garðsins um að hlúa að umhverfinu og rækta mannlífið enn fullt erindi við samtímann.

Boðið verður upp á fjölbreytta dagskrá í tengslum við sýninguna, sjá nánar á www.hafnarborg.is

Opnunartímar:
Alla daga frá kl. 12–17
og fimmtudaga til kl. 21.
Lokað á þriðjudögum.















yfirlit