Fiskbeinamódel Róshildar Jónsdóttur er gott dæmi um það hvernig móta má gamlar hefðir inn í nútímann og framtíðina. Staðbundið hráefni er nýtt á ferskan hátt sem höfðar til alþjóða markaðar. Verkefnið er unnið í samstarfi við vísindamenn og framleiðslufyrirtæki í fiskiðnaði. Sýningin stendur til 22. júní 2013, í Spark Design Space Klapparstíg 33.
SKEPNUSKÖPUN er verkefni Róshildar Jónsdóttur, vöruhönnuðar. Róshildur hefur undanfarin ár unnið að hugmynd þar sem fiskibein eru notuð sem efniviður í módel. Fiskibeinamódelið kemur í kassa sem inniheldur hreinsuð bein úr fiskhausum og málningu. Beinin má líma saman á margvíslegan hátt og skapa þannig allt frá englum til geimskipa, skrímsla eða álfa. Formin á einstaka beinum minna á furðurverur og jafnvel farartæki úr tölvuleikjum og tengjast þannig ævintýrum og leikjamenningu líðandi stundar. Þessi lífrænt ræktaða vara er á sama tíma hressilegt mótvægi við innflutt módel og leikföng úr plasti.
Uppsprettan að verkefninu er lokaverkefni Róshildar í vöruhönnun við Listaháskóla Íslands en eins og margar góðar hugmyndir átti varan langt í land þar sem Róshildur sá hana ávallt fyrir sér sem fjöldaframleidda afurð. Til þess að svo gæti orðið lögðu ýmsir aðilar lóð sín á vogarskálarnar. Háskólinn á Akureyri lagði til þekkingu og þróun á notkun ensíma til að hreinsa beinin, Sero ehf. á Blönduósi, Norðurströnd á Dalvík og Sútunarverksmiðjan á Sauðárkróki lögðu til þekkingu og reynslu sem var nauðsynleg til að hægt að framkvæma verkefnið á stórum skala. Hér er í raun sett fram dæmi að nýrri tegund af útgerð. Ef til vill er það hafsjór hugmyndanna sem verða okkar gjöfulustu mið í framtíðinni.
Skepnusköpun snýst um gildi eins og samveru barna og foreldra, hún snýst um að efla ímyndunaraflið og sköpunargleðina og að komast í snertingu við hráefni sem er undirstaða þjóðarinnar. Verkefnið smellpassar inn í tíðarandinn í dag þar sem áhersla er lögð á að fullnýta afurðir á borð við fisk. Á sýningunni má skoða verk sem Róshildur hefur unnið en auk þess hafa fimm listamenn og hönnuðir spreytt sig á beinunum. Á neðri hæðinni í Sparki verður Skepnusköpun í boði fyrir börn. Verkefnið er gott dæmi um það hvernig móta má gamlar hefðir inn í nútímann og framtíðina, og hvernig nýta má staðbundið hráefni og hefðir á ferskan hátt um leið og höfðað er til alþjóða markaðar. Þetta er skapandi umbreyting eins og hún gerist best.
Spark Design Space er opið alla virka daga frá kl. 10.00 - 18.00 og laugardaga kl. 12.00 - 16.00. Lokað á sunnudögum.