30.11.2012

Hönnunarsafn Íslands | Jólaföndursmiðja fyrir fjölskylduna



Þann 1. desember verða ljósin tendruð á jólatrénu á Garðatorgi. Dag Wernø Holter, sendiherra Noregs á Íslandi, afhendir tréð frá vinabænum Asker í Noregi. Í tilefni þess er ókeypis aðgangur að safninu frá kl. 12-17 þann dag.

Yfirstandandi sýning er yfirlit á verkum Gísla B. Björnssonar grafísks hönnuðar en hann er að sönnu einn atkvæðamesti grafíski hönnuðurinn í íslenskri hönnunarsögu á 20. öld. Við höfum einnig, í tilefni aðventunnar, stillt upp myndskreyttum jólabókum og ljóðum um jólin sem hafa verið gefin út á Íslandi á síðustu áratugum. Áhugavert er að skoða hvernig rithöfundum, hönnuðum og myndlistarmönnum tekst að vekja hughrif og tilfinningar með samspili orða og mynda. Jólabækurnar og ljóðin liggja frammi á safninu í desember og er gestum velkomið að fletta bókunum og skoða þær.

Í smiðju getur fjölskyldan búið til jólakort, klippt út engla og annað jólaskraut en jólasmiðjan hefur verið vinsæl hjá nemendum leik-og grunnskóla sem koma til okkar á skólatíma. Skólabörnin hafa búið til engla, kramarhús, músastiga, klippt jóladúka og búið til jólaskraut af ýmsu tagi.
Kraum, safnbúðin, er ávallt opin á opnunartíma safnsins en þar er gott úrval af íslenskri hönnun og skemmtilegum jólavörum.

Verið velkomin!
Opnunartímar: alla daga nema mánudaga kl. 12-17.

Vefsíða Hönnunarsafns Íslands















yfirlit