6.11.2012

Sýning | Goddur - Veggspjöld



Þriðjudaginn 30. október opnar í SPARK sýning á veggspjöldum Guðmundar Odds Magnússonar. Goddur er prófessor í grafískri hönnun við Listaháskóla Íslands. Hann er fyrst og fremst þekktur sem sérfræðingur í myndmálsnotkun, sögu grafískrar hönnunar og myndmálsarfi íslendinga. Sýnd verða 29 veggspjöld sem spanna síðustu 16 ár og er viðfangsefni veggspjaldanna flóra listviðburða. Útfærslan er í senn litrík, kraftmikil, ögrandi og ekta. Verkin hafa verið endurgerð í takmörkuðu upplagi og eru til sölu í SPARK.

Brot úr textanum:
Form og snúið inntak: Veggspjöld Godds eftir Jón Proppé:


Guðmundur Oddur Magnússon, Goddur, nam myndlist í Reykjavík og seinna grafíska hönnun í Vancouver í Kanada. Hann hefur kennt grafíska hönnun frá 1993, fyrst í Myndlistaskólanum á Akureyri, svo í Myndlista- og handíðaskólanum og í Listaháskóla Íslands þar sem hann er prófessor. Hann er án efa þekktasti málsvari grafískrar hönnunar á Íslandi. Goddur hefur þannig fengist mest við kennslu og fræðistörf síðustu tvo áratugi en hann hefur þó fundið sköpunarþörfinni útrás í ýmsum verkefnum, ekki síst í veggspjöldum sem hann hefur hannað fyrir ýmsa menningarviðburði. Þessi verk bera sterk höfundareinkenni þótt þeim megi reyndar skipta í nokkra flokka. Mörg byggjast á ljósmyndum enda er Goddur atkvæðamikill ljósmyndari. Þau veggspjöld eru gjarnan unnin þannig að textinn er handskrifaður yfir ljósmyndina, þótt á sumum sé líka notað sett letur, og hafa létt, næstum leikandi yfirbragð sem undirstrikar kannski leikinn í þeim viðburðum sem þau tengjast: myndlistarsýningum, tónleikum o.fl.

Veggspjöld Godds hafa vakið mikla athygli enda er þarna um að ræða merkilegt og samfellt höfundarverk hönnuðar sem ekki þarf að þóknast viðskiptavinum heldur vinnur alfarið á sínum eigin forsendum. Veggspjöldin hafa verið sýnd víða um heim og hafa birst í mörgum bókum, m.a. í bókinni Graphic Design For The 21st Century: 100 Of The World’s Best Graphic Designers eftir Charlotte og Peter Fiell (Taschen, 2003) þar sem Goddur er einn þriggja íslenskra hönnuða ásamt Katrínu Pétursdóttur og Gunnari Þór Vilhjálmssyni.

Textann má lesa í heild sinni á heimasíðu SPARK


SPARK | Design Space
Klapparstíg 33
101 Reykjavík

Opið virka daga frá kl. 10-18,
12-16 á laugardögum, lokað á sunnudögum

Sýningin stendur til 15.01.2013















yfirlit