29.6.2012

Sýningin New Nordic – Architecture & Identity opnar í Louisiana

 
Fimmtudaginn 28. júní opnaði sýningin New Nordic – Architecture & Identity í Louisiana safninu í Danmörku.

Á sýningunni er lögð áhersla á sérkenni arkitektúrs og borgarskipulags á Norðurlöndunum í dag og hvernig hugmyndir þar að lútandi hafa áhrif á þróun samfélagsins og menningu. Einnig er spurningum um sérstöðu Norðurlandanna varðandi t.d. matarmenningu, hönnun og listir velt upp.

Sýningin snýst um þrjú meginþemu, hið opinbera rými, samfélög og staðbundnar aðstæður og er ýmsum miðlum er beitt til að koma umfjölluninni sem best til skila, s.s. vídeó og innsetningum.

Fimm arkitektar frá Norðurlöndunum hafa hver byggt sitt hús fyrir sýninguna til að skoða megi það sem er líkt og ólíkt með arkitektúr á Norðurlöndunum. Arkitektastofurnar eru Studio Granda frá Íslandi, Johan Celsing frá Svíþjóð, Jarmund/Vigsnæs frá Noregi, Lassila Hirvilammi frá Finnlandi og Lundgaard & Tranberg frá Danmörku.

Við inngang sýningarinnar má berja augum túlkun 30 einstaklinga frá Norðurlöndunum á hver sérkenni Norðurlandanna eru. Um er að ræða hluti, vídeó og annað í þeim dúr.

Meðal þeirra sem koma að sýningunni frá Íslandi eru ARKIS, Arkitema, Basalt Arkitektar, Studio Granda, arkitektarnir Ola Steen og Kolbrún Ragnarsdóttir, Ólafur Elíasson listamaður, Pálmar Kristmundsson arkitekt, hönnunarteymið Fanney Antonsdóttir og Dögg Guðmundsdóttir, Guðrún Lilja Gunnlaugsdóttir hönnuður, Kristinn E. Hrafnsson listamaður, Sruli Recht hönnuður og Hallgrímur Helgason rithöfundur.

Aðrir þátttakendur eru m.a. Bjarke Ingels Group, Gehl Architects, Snöhetta og SLA.

Sýningin stendur til 21. október 2012.

Nánari upplýsingar má finna á heimasíðu Louisiana safnsins hér.















yfirlit