10.5.2012

Sýning | Myndlistaskólinn í Reykjavík



Nemendasýning Myndlistaskólans í Reykjavík opnar í nýbyggingu Lækningaminjasafnsins á Seltjarnarnesi, föstudaginn  4. maí kl. 17.00. Sýningin stendur til sunnudagsins 13. maí og er opin virka daga kl 14 – 18 og um helgar frá 12 – 18.

Annars vegar er um að ræða lokaverkefni nemenda í þremur deildum skólans, Mótun, Teikningu og Textíl, en í þessum deildum fer fram tveggja ára fullt nám á diplómastigi og er námið í samstarfi Myndlistaskólans og Tækniskólans, skóla atvinnulífsins. Alls eru nemendur í þessum deildum 46 talsins.

Hins vegar er sýning á verkum 25 nemenda á Myndlista- og hönnunarsviði sem er eins árs grunnnám á framhaldsskólastigi.

Mótun sýnir nú lokaverk nemenda sinna í fjórða sinn en tvær síðarnefndu deildirnar, Teikning og Textíll, tóku inn nemendur í fyrsta sinn vorið 2010 og eru þetta því fyrstu hóparnir sem ljúka námi þaðan.

Nemendur úr einum hluta Mótunar, hafa í vetur verið í samstarfi við Kahla, sem er ein helsta postulínsverksmiðja Þýskalands og kemur fulltrúi frá Kahla sérstaklega á sýninguna og velur verkefni sem nemendur munu þróa áfram með fagfólki innan fyrirtækisins í Þýskalandi. Þetta er annað árið sem skólinn er í samstarfi við þetta áhugaverða fyrirtæki og sýndu nemendur afrakstur þeirrar vinnu í Berlín síðasta sumar (http://www.atriptothefactory.com/.). Stefna skólanna er að í náinni framtíð muni nýju deildirnar, Teikning og Textíll, einnig eiga aukið samstarf við erlend og innlend fyrirtæki líkt og þetta samstarfsverkefni Mótunardeildar við Kahla.

Í náminu er lögð áhersla á haldgóða verkþekkingu og skilning á þeim aðferðum og leiðum sem hver grein lýtur. Nemendur læra að skilja hvernig hugmyndir geta kviknað í gegnum efniviðinn og að með aukinni kunnáttu og hæfni opnast nýjar leiðir.

Náminu er skipt í fjórar annir og byggir ofan á þann grunn sem listnámsbrautir framhaldsskólanna veita. Kennarar eru allir starfandi listamenn, hönnuðir og fagfólk, hvert á sínu sviði.

Sýningin stendur til sunnudagsins 13.maí og er opin virka daga kl 14 – 18 og um helgar frá 12 – 18.

myndlistaskolinn.is















yfirlit