13.1.2012

Sýning og málþing | Arkitektastofan Snøhetta

 
 
KAREN AGNETE & SNØHETTA
OPNUN Á KJARVALSSTÖÐUM, LAUGARDAG 14. JANÚAR KL. 16

Framúrskarandi hönnunarafrek norsku arkitektastofunnar Snøhettu prýða vestursal Kjarvalsstaða sem opnaðar verður næstkomandi laugardag kl. 16. Arkitektastofan Snøhetta hefur unnið til margra, alþjóðlegra viðurkenninga og staðið að gerð þekktra bygginga um heim allan. Sunnudaginn 15. janúar kl. 15 verður efnt til málþings í tengslum við sýningu Snøhettu þar sem frummælendur eru Eva Madshus sýningarstjóri og Tarald Lundvall framkvæmdastjóri Snøhetta.

SNØHETTA – ARKITEKTÚR, LANDSLAGSHÖNNUN, INNANHÚSHÖNNUN
Norska arkitektastofan Snøhetta hefur hlotið alþjóðlega viðurkenningu fyrir byggingar sínar. Hún bar sigur úr bítum í alþjóðlegri samkeppni um gerð lista- og menningarmiðstöðvar til minningar um fórnarlömb hryðjuverkaárásanna í New York 11. september 2001, Bókasafnsins í Alexandríu og nýja Óperuhússins í Ósló; byggingum sem nú eru orðnar að þekktum kennileitum. Á 20 ára afmæli stofunnar árið 2009 var efnt til stórrar yfirlitssýningar í nýju byggingarlistardeildinni í Listasafni Noregs í Ósló og er úrval verka frá þeirri sýningu sýnt á Kjarvalsstöðum. Sýningin skiptist í átta hluta þar sem arkitektastofan og afrek hennar eru kynnt á fjölbreyttan og lifandi máta.

Sýningin er gerð með stuðningi frá Norska sendiráðinu á Íslandi og er haldin á vegum Norska utanríkisráðuneytisins. Hún er sett upp af byggingar- og hönnunardeild Listasafns Noregs í náinni samvinnu við Snøhetta. Sýningarstjóri er Eva Madshus, yfirsýningarstjóri byggingar- og hönnunardeildar Listasafns Noregs.

MÁLÞING - SNØHETTA OG BYGGINGARLIST Í SAMTÍMANUM

KJARVALSSTAÐIR SUNNUDAG 15. JANÚAR KL. 15 - 17
Málþing skipulagt í tengslum við sýninguna Snøhetta - Arkitektúr, landslagshönnun, innanhússhönnun á Listasafni Reykjavíkur - Kjarvalsstöðum. Sýningarstjórinn Eva Madshus fjallar um norska byggingarlist í samtímanum og Tarald Lundvall framkvæmdastjóri Snøhetta fjallar um valin verkefni arkitektafyrirtækisins. Umræður taka einnig á norskum áhrifum á íslenska byggingarlist í samtímanum með þátttöku íslensku arkitektanna Ólafar Örvarsdóttur og Baldurs Ó. Svavarssonar í pallborði.

Dagskrá:
  • 15:00 Kynning
  • 15:10 Norsk byggingarlist í samtímanum. Eva Madshus, yfirsýningarstjóri byggingar- og hönnunardeildar Listasafns Noregs.
  • 15:30 Snøhetta.Tarald Lundvall, framkvæmdastjóri Snøhetta.

Kaffihlé

16:20 Pallborðsumræður
Þátttakendur:
  • Eva Madshus, yfirsýningarstjóri byggingar- og hönnunardeildar Listasafns Noregs.
  • Tarald Lundvall, framkvæmdastjóri Snøhetta.
  • Ólöf Örvarsdóttir, arkitekt og skipulagsstjóri Reykjavíkurborgar.
  • Baldur Ó. Svavarsson, arkitekt FAÍ og FSSA hjá Úti og inni arkitektar.
  • Stjórnandi er Kristín Dagmar Jóhannesdóttir verkefnastjóri dagskrár Listasafns Reykjavíkur
Málþingið fer fram á ensku.

www.listasafnreykjavikur.is
















yfirlit