23.6.2011

Sýning | ÞRÁÐUR



Á þjóðhátíðardaginn, 17. júní kl. 15.00, opnar í Sparki ný sýning undir yfirskriftinni ÞRÁÐUR.  Hér koma saman tvær kynslóðir sem fást við skartgripagerð. Verk þeirra endurspegla ólíka aðferðafræði og gildismat en eiga samt sem áður margt sameiginlegt.

Dóra Guðbjört Jónsdóttir
er fædd árið 1930 og nam gullsmíði hjá föður sínum Jóni Dalmannssyni og einnig við Konstfackskolan í Stokkhólmi og Vereinigte Goldschmiede- und Kunstgewerbeschule í Pforzheim í Þýskalandi. Dóra tók við fyrirtæki föður síns, Gullkistunni, árið 1970 og hefur rekið það síðan. Hún hefur sérhæft sig í smíði á víravirki og er okkar fremsti fagmaður á því sviði. Nýlega hlaut hún sérstaka viðurkenningu frá Samtökum kvenna í atvinnurekstri auk þess sem Iðnaðarmannafélag Reykjavíkur valdi hana „Iðnaðarmann ársins 2011“ fyrir ómetanlegt starf í þágu gullsmíðagreinarinnar.

María Kristín Jónsdóttir
er fædd árið 1977. Hún útskrifaðist frá Listaháskóla Íslands árið 2003 af vöruhönnunarbraut. María Kristín er fulltrúi kynslóðar sem hefur tileinkað sér meira frelsi í verkefna- og efnisvali. Efniviður hennar er band sem formað er í einstaka skartgripi með aðferðum sem þekktar eru í hnýtingum auk nýrra aðferða sem María Kristín hefur þróað til að ná fram þeim formum sem hún sækist eftir. Skartgripirnir hafa tilvísun í hátíðar- og einkennisbúninga og búa meðal annars yfir þeim góða eiginleika að koma fólki í hátíðarskap. Það sama má einnig segja um skartgripi Dóru.

Spark Design Space, Klapparstíg 33, opið 10.00 - 18.00 virka daga og 12.00 - 16.00 á laugardögum.

Sýningin stendur til 10. september.

Nánari upplýsingar veitir Sigríður Sigurjónsdóttur í síma 6991090 eða sigridur@sparkdesignspace.com


Ljósmyndari: Oddvar















yfirlit