30.5.2011

Sýning | DMY í Berlín



Nemendur í Mótun við Myndlistaskólann í Reykjavík í samstarfi við þýsku postulínsverksmiðjuna Kahla, sýna á alþjóðlegu hönnunarsýningunni  DMY í Berlín 1.-5. Júní 2011. 


Í mars 2010 fóru nemendur Mótunar í tveggja vikna námsferð til Þýskalands sem styrkt var af Leonardo starfsmenntaáætlun Evrópusambandsins. Markmið ferðarinnar var m.a. að kynnast framleiðsluaðferðum á postulínsvörum. Ferðin endaði í Kahla þar sem samstarfsverkefnið hófst.

Postulínsverksmiðjan Kahla var stofnuð árið 1844 og er í dag ein sú tæknilegasta í heimi þegar kemur að framleiðslu á postulínsborðbúnaði. Vörur frá Kahla hafa verið seldar í gegnum tíðina víðsvegar um heiminn og þar á meðal hér á Íslandi.

Samstarfið byggðist á að nemendur hönnuðu og þróuðu vöru úr postulíni fyrir verksmiðjuna. Útgangspunktur verkefnisins var postulín annars vegar og framleiðsla hins vegar. Leitast var eftir frumlegri og persónulegri nálgun nemenda í hugmyndavinnunni en útkoman er vara úr postulíni sem hentar til fjöldaframleiðslu. Innblástur nemenda var fjölbreyttur en kjarni hugmyndanna er mannleg hegðun, siðir og náttúran. Markmið verkefnisins er að gefa nemendum tækifæri á því að kynnast raunverulegum heim postulínsfjöldaframleiðslunnar þar sem nemendur kynnast mótunarmöguleikum postulíns og að vinna í samstarfi við fyrirtæki í fremstu röð í heiminum.

Afrakstur verkefnisins verður sýndur dagana 1. -5. júní á alþjóðlegu hönnunarsýningunni DMY í Berlín.

DMY í Berlín er alþjóðleg hönnunar sýning sem hefur á undanförnum árum skipað sér sess sem einn af aðal hönnunarviðburðum dagsins í dag. Um 30.000 gestir sækja sýninguna í Berlín og um 500 blaða og fjölmiðla fólk. Árlega sýna um 400 sjálfstæðir hönnuðir verk sín ásamt þeim taka þátt um 17 alþjóðlegir hönnunarskólar og kynna þar verk nemenda sem og starfsemi sína. Sýningarsvæðið er um 11000 fermetrar að stærð sem staðsett er í Tempelhof, sögufrægri flugstöð í miðri Berlín.

Mótun er tveggja ára diplómanám í keramik og er lögð áhersla á frjótt vinnuferli og að nýttir séu til hlítar margvíslegir möguleikar í efnum og aðferðum. Í náminu er horft til framtíðar, en aðferðir og hefðir fortíðar hafðar að leiðarljósi. Markmið námsins er að nemendur öðlist þá færni að geta haslað sér völl sem sjálfstæðir hönnuðir og listamenn. Einnig er horft til raunhæfra tengsla og tenginga við ýmsar greinar og fyrirtæki og til þess að nemendur afli sér þekkingar á menningar- og viðskiptaumhverfi samtímans.

Samstarf Myndlistaskólans í Reykjavík og Kahla er mikilvægur þáttur í þróun og eflingu á námi í keramiki hér á Íslandi. Með þessu samstarfi gefst nemendum ómetanlegt tækifæri í að kynnast raunverulegum kröfum og starfsháttum hágæða postulínsframleiðslufyrirtækis. Um leið fær Kahla að kynnast íslenskum nemendunum og náminu hér í Myndlistaskólanum í Reykjavík. Með því að taka þátt í stórri alþjóðlegri sýningu sem DMY gefst tækifæri á að sýna í alþjóðlegu samhengi afrakstur samstarfsins. Stærsti þátturinn í þróun og eflingu keramiks á Íslandi felst í þátttöku í alþjóðlegu samstarfi og samtali.

Vefsíða hefur verið opnum um verkefnið slóðin er: www.atriptothefactory.com















yfirlit