19.5.2011

Sýningarstjóraspjall | Hugvit



Næstkomandi fimmtudagskvöld 26. maí kl. 20 verður sýningastjóraspjall við annan sýningarstjóra sýningarinnar Hugvit sem nú stendur yfir í Hafnarborg.

Guðmundur Oddur Magnsússon grafískur hönnuður og prófessor við Listaháskóla Íslands, öðru nafni Goddur mun ræða við gesti um sýninguna.

Á sýningunni er leitast sérstaklega við að kynna hugsuðinn og rannsakandann Einar Þorstein Ásgeirsson. En hugmyndir Einars byggja á þeirri sannfæringu hans að hugvit geti byggt betri heim sé því rétt beitt. Sýningin bregður upp mynd af því sem Einar Þorsteinn hefur tekið sér fyrir hendur á ferli sínum.

Goddur mun spjalla við gesti um hugmyndir og verk Einars sem endurspegla mikla þekkingu og einstaka sýn á lögmál náttúrunnar og hvernig beita megi þessum lögmálum í arkitektur, hönnun og myndlist. Leitast verður við að setja feril hans í samhengi við samtímann og tíðarandann útfrá verkunum á sýningunni.

Sýningunni fylgir vegleg sýningarskrá í bókaformi sem inniheldur fróðlegt viðtal Godds við Einar Þorstein ásamt fjölda mynda. Auk þess er þar að finna texta eftir Pétur H. Ármannsson arkitekt þar sem hann fer yfir feril og hugmyndaheim Einars sem er einn framsæknasti formhönnuður þjóðarinnar.

Nánari upplýsingar:
Klara Þórhallsdóttir Fræðslu- og upplýsingafulltrúi Hafnarborgar sími 585 5790

Hafnarborg er opin frá kl. 12–17 en á fimmtudögum er opið frá kl. 12-21 á kvöldin. Lokað þriðjudaga.

www.hafnarborg.is
















yfirlit