Norrænt landslag, ungt fólk og sköpun í byggingarlist
Laugardaginn 21. maí opnar í Norræna Húsinu sýningin Víðátta og rjóður sem unnin er upp úr syrpu listbúða sem haldnar voru þrjú sumur í þremur norrænum löndum fyrir ungmenni úr þremur norrænum lista- og byggingarlistarskólum.
Myndlistaskólinn í Reykjavík átti frumkvæði að listbúðunum sem voru skipulagðar í samstarfi við tvo aðra skóla, ARKKI, School of Architecture for Children and Youth í Helskinki, Finnlandi og Billedskolen Tvillingehallerne í Kaupmannahöfn, Danmörku. Hópur ungmenna kom saman vikulangt í þrjú sumur með leiðbeinendum úr skólunum - fyrst á austur-Íslandi, þá í suður-Finnlandi og síðast á vestur-Sjálandi. Viðfangsefni listbúðanna var náttúra, landslag og manngert umhverfi byggingarlistar og verkefnin tengd listrænni sköpun byggðri á skynjun og skilningi fyrir landslagi og menningu hvers staðar.
Listbúðirnar snertu á margan hátt það sem sameiginlegt er eða sérstakt á Norðurlöndunum og vöktu athygli á ábyrgð okkar gagnvart landslaginu, hvort heldur er hið náttúrulega og ósnortna landslag eða hið manngerða landslag sem krefst meðal annars vitundar um menningararf og auðlindir jarðarinnar sem huga þarf í auknum mæli.
Sýningin í Norræna Húsinu gefur innsýn í margvísleg verkefni sem þar voru unnin auk þess sem boðið verður upp á að gestir geti spreytt sig á völdum verkefnum úr listbúðunum í opinni smiðju í landslaginu umhverfis Norræna Húsið.
Sýningarstjóri er Guja Dögg Hauksdóttir arkitekt, sem hefur mótað og tekið þátt í öllum listbúðunum þremur.
Sýningin opnar laugardaginn 21. maí kl. 14 með stuttri leiðsögn og léttum veitingum og lýkur sunnudaginn 5. júní, en er opin alla daga frá 10 - 17.
Aðgangur að sýningu og listsmiðju er ókeypis.