31.3.2011

8045 | Tískusýning



8045 er íslenskt tískumerki sem gerir hátísku herrafatnað.

Bóas Kristjánsson aðalhönnuður stofnaði fyrirtækið 2008 og síðan þá hefur það vaxið og telur nú 5 starfsmenn. 8045 hlaut nýverið hönnunarstyrk Auroru og mun nota þann styrk til að koma sér á framfæri á herratískuvikunni í París í júní 2011.

Á laugardaginn munum við “forsýna” brot úr Vor/ Sumar 2012 línunni sem samanstendur af klæðskerasaumuðum jökkum, skyrtum og buxum úr fínasta hráefni, léttri ull, lífrænni bómull, hör og hampi. Léttar prjónaflíkur úr lífrænu bómullargarni sem prjónað er hjá Glófa. Flíkurnar höfða flestar bæði til kvenna og karla og Bóas leikur sér með nýstárleg snið, efni og litasamsetningar.

8045 reynir eftir fremsta megni að nota umhverfisvæn og lífræn efni í fatnað sinn ásamt því að nota íslenska framleiðendur. 8045 vinnur einnig að þróunarverkefni á íslenskum lífrænum textílum og er í ráðgjafastöðu hjá Nordic fashion association hvað varðar umhverfisvæna framleiðslu.

Það hefur lengi verið draumur Bóasar að sýna í einni glæsilegustu byggingu íslendinga sem er Austurbæjarskóli. Sýningin verður í Austurbæjarskóla kl 2 um dag þegar birtan skín inn um stóru gluggana og leyfa húsnæðinu og flíkunum að njóta sín sem best.

Við vonum að þið sjáið ykkur fært að mæta og minnum á að senda okkur staðfestingu um komu ykkar þar sem er takmarkað sætaframboð.





















yfirlit