9.11.2010

Sýning | Flækjuljós

 
 
 
Aurum-Hönnun & Lífsstíll kynnir Flækjuljós Brynju Emilsdóttur

Frá þvi að Aurum opnaði hönnunar & lífsstílsverslun sína síðastliðið vor hefur fastur liður verið kynningar á valdri vöru eftir íslenska hönnuði. Hönnuðirnir fá þá tækifæri til að kynna vöru sína í einn mánuð í verslun Aurum við Bankastræti 4.

Hönnuður nóvember mánaðar er textíl- og fatahönnuðurinn Brynja Emilsdóttir og varan sem hún kynnir er Flækjuljósið. Flækjuljósin eru lampakúplar handunnir úr tvinna. Brynja hefur um árabil unnið föt, mynstur og nytjahluti úr tvinnaflækjum en hefur að undanförnu unnið úr þeim kúlur sem hún svo gerir úr lampakúpla. Allt að 2.000 metrar af tvinna fara í hvern lampa en þræðina vinnur hún í marglitar flækjur sem gefa töfrandi litbrigði og mynda hálfgagnsætt efni sem gefur frá sér hlýlegt og fallegt ljós. Kúplarnir eru í ýmsum stærðum og litum og má bæði nota þá sem lampa á fæti og sem loftljós.

Brynja útskrifaðist frá textíldeild Listaháskólans árið 2000 og lagði síðar stund á nám í fatahönnun fyrir iðnframleiðslu við Guerrero skólann í Barcelona á Spáni. Hún hefur síðan unnið að fata- og textílhönnun auk þess sem hún kennir við Myndlistarskóla Reykjavíkur.

Flækjuljósin verða til sýnis og sölu í Aurum Hönnun & Lífsstíll, Bankastræti 4, út nóvember mánuð.















yfirlit