27.9.2010

Jón Haraldsson arkitekt | Innsetning og umræður

 
    Jón Haraldsson | Stykkishólmskirkja
 
 
 
 
Í tilefni af alþjóðlegum byggingarlistardegi verður slegið upp dagskrá á Kjarvalsstöðum Listasafns Reykjavíkur sem helguð er Jóni Haraldssyni arkitekt.


Um er að ræða innsetningu sem mun standa helgina 2.-3. október.

Laugardaginn 2. október kl. 15:00 verður Pétur H. Ármannsson arkitekt með fyrirlestur um verk Jóns og nokkrir vina hans og samstarfsmanna munu halda stutt erindi um hann.

Haraldur Jónsson myndlistarmaður og sonur arkitektsins, mun setja upp innsetningu í fyrirlestrarsal Kjarvalsstaða, þar sem meðal annars verður brugðið upp mynd af byggingarlist og iðnhönnun Jóns auk hljóðmyndar sem unnin er í samstarfi við Guðna Tómasson útvarpsmann. Þar verður einnig að finna lampa sem Eyjólfur Pálsson í EPAL hefur látið framleiða að nýju í takmörkuðu upplagi undir merkjum syrpu sem kallast Hönnun fyrri daga vakin til lífsins, en áður hafa þar litið dagsins ljós hönnunarhlutir eftir Dieter Roth og arkitektinn Manfreð Vilhjálmsson.

JÓN HARALDSSON
Jón Haraldsson er fæddur í október 1930 og hefði því orðið 80 ára á þessu ári. Honum auðnaðist ekki að ná háum aldri en náði engu að síður að marka sterk spor á vettvangi íslenskrar byggingarlistar og í raun íslenskrar menningar, þar sem hann beitti sér á breiðum vettvangi og tók virkan þátt í opinberum umræðum í ræðu og riti með listamönnum af ýmsu tagi.

Jón meitlaði orðræðu sína rétt eins og byggingarnar hrátt og umbúðalaust, og hafði sterkar skoðanir varðandi ímynd og menntun arkitekta, skipulag, fagurfræði og íslenskt samfélag sem oft voru settar fram með beinskeyttri kímnigáfu.

Meðal helstu verka hans eru Stykkishólmskirkja, Félagsstofnun stúdenta við Hringbraut, heimavistarskóli í Krýsuvík auk heilsugæslustöðva víða um land og íbúðarhúsa fyrir nafnþekkta einstaklinga svo sem listamennina Dieter Roth og Baltasar Samper, rithöfundana Sigurð A. Magnússon og Jökul Jakobsson auk Þórðar Gröndal og Knúts Bruun.

Í kjölfar dagskrárinnar, eða föstudaginn 15. október verður Guðni Tómasson með útsendingu tileinkaða Jóni í föstudagsútgáfu menningarþáttarins Víðsjár.

Aðgangur ókeypis og öllum opinn.

Þetta segir í fréttatilkynningu frá Listasafni Reykjavíkur.















yfirlit