24.9.2010

Sýning | Sigga Heimis í Hönnunarsafninu

 
 
 
 
 
Formleg opnun sýningar á verkum Sigríðar Heimisdóttur iðnhönnuðar verður í Hönnunarsafni Íslands laugardaginn 11. september næstkomandi kl. 15. Mennta- og menningarmálaráðherra, Katrín Jakobsdóttir opnar sýninguna. 

Sigga Heimis er fædd árið 1970 og hefur frá því að hún útskrifaðist frá Istituto Europeo di Design og Domus Academy í Mílanó unnið ólík verkefni fyrir fjölda framleiðenda. Hún var ráðin hönnuður hjá IKEA í upphafi þessa áratugar og þar kynntist hún þeirri hugmyndavinnu og aðferðarfræði sem þessi gríðarstóri framleiðandi á heimsmarkaði hefur skapað sér. Í upphafi árs 2008 var Sigga ráðin hönnunarstjóri hjá danska húsgagnaframleiðandanum Fritz Hansen og vann þar með fjölda hönnuða, meðal annars við endurhugsun og endurnýjun húsgagna; merkisberum danskrar húsgagnahönnunar á 20. öld.

Sigga hefur að auki starfað með fjölda erlendra háskóla víða um heim og unnið verkefni fyrir Vitra hönnunarsafnið í Þýskalandi og Corning glerlistasafnið í New York ásamt því að hanna í samstarfi við íslenska framleiðendur.

Í hönnun sína hefur Sigga valið ólíkan efnivið og velt fyrir sér formi og notagildi með ábyrgri umhverfisvitund í huga. Sigga hefur sótt innblástur heim til Íslands í mörgum verkefnum sínum fyrir hluti sem hafa verið fjöldaframleiddir og finnast á heimilum og skrifstofum víða um heim. Á sýningunni gefst tækifæri til að skoða fjölbreytta hönnun og kynnast starfi iðnhönnuðar sem vinnur í alþjóðlegu umhverfi.

Safnið gefur út sýningarskrá þar sem fjallað er um valda hluti eftir Siggu.

Sýningarstjóri er Árdís Olgeirsdóttir.  

Fyrirlestur á mánudagskvöld

Mánudaginn 13. september  kl. 20 verður Sigga með fyrirlestur um hönnun sína. Hún mun segja frá starfi sínu sem iðnhönnuður og lýsa því umhverfi sem hún hefur starfað í.

Allir eru velkomnir meðan húsrúm leyfir, aðgangur er ókeypis. Áhugafólk og fagfólk í hönnun er hvatt til að mæta. Fyrirlesturinn fer fram í Hönnunarsafni Íslands, Garðatorgi 1, 2. hæð og hefst kl. 20.    



Nánari upplýsingar um fræðsludagskrá er að finna á: www.honnunarsafn.is  
Allar frekari upplýsingar um safnið veitir forstöðumaður: Harpa Þórsdóttir s. 617 1525















yfirlit