20.6.2010

Landslagsarkitektúr á EXPO



Í tengslum við heimssýninguna EXPÓ sem haldin er í Shanghai í Kína í sumar hefur verið sett upp sýning á nýjum norrænum landslagsarkitektúr. Sýningin ber heitið NEW NORDIC LANDSCAPES eða "nýtt norrænt landslag" en þar verða til sýnis valin landslagsverkefni frá öllum Norðurlöndunum, sem taka á einn eða annan hátt undir með þema EXPÓ í ár : BETTER CITIES - BETTER LIFE eða "betra borgarumhverfi - betra líf". Markmiðið með sýningunni er að vekja athygli á vaxandi mikilvægi og möguleikum landslagsarkitektúrs í mótun manngerð umhverfis, ekki síst með tilliti til vistvænna lausna á aðkallandi vanda heimsins og þörfina á nýrri stefnu í meðferð auðlinda, þar sem ekki sé einungis hugað að tæknilegum þáttum heldur einnig að fagurfræði og hugmyndalegri heildarsýn á umhverfi okkar, staðbundið eða hnattrænt.

Sýningin er mjög metnaðarfull fyrir margar sakir en sérstaklega athyglisvert er að sýningarstjóri sýningarinnar Kjersti Wikström valdi íslenska landslagsarkitektinn Dagnýju Bjarnadóttir til þess að sjá um sýningarhönnun sýningarinnar.  Sýningin er sett upp í "húsgögnum" sem Dagný hannaði undir heitinu Furnibloom.

Auk þess er athyglisvert að sjá að aðalkynningarefni sýningarinnar í heild birtir mynd af íslenska verkefninu á sýningunni - mynd af landslagsarkitektúr Hellisheiðarvirkjunar,  sem unnið er af landslagsarkitektastofunni Landslag fyrir Orkuveitu Reykjavíkur, en sýningarstjóri íslenska hlutans er Guja Dögg Hauksdóttir, arkitekt.

Í rökstuðningi með vali á íslensku tillögunni er til þess tekið að verkefnið tengist vel þema EXPÓ 2010 um "betra borgarumhverfi, betra líf" ásamt undirtitlinum "endurnýjanlegar orkulindir og beiting þeirra í þéttbýli" (renewable sources of energy and resilience in urban context). Verkefnið bryddar upp á umræðum í stærra samhengi sem varða möguleika og verksvið landslagsarkitektúrs í mótun manngerðs umhverfis, og er vel til þess fallið að vekja athygli á mikilvægu hlutverki landslagsarkitektúrs í nýrri heimsmynd þar sem fagurfræði, tækni og afstaða til náttúrulegra auðlinda helst í hendur við vistvernd og meðvitund um endurnýjanlega orku.

Að sýningunni NEW NORDIC LANDSCAPES á EXPÓ 2010 standa DAC - Dansk Arkitektur Center, Museum of Finnish Architecture, sænska Arkitekturmuseet, Norsk Form og Norræna Húsið í Reykjavík, allt arkitektasöfn og menningarstofnanir á Norðurlöndunum,  en það er fjármagnað með styrkjum frá Norrænu ráðherranefndinni auk annarra sem að verkefnunum standa. Hið þekkta alþjóðlega landslagstímarit TOPOS, sem hélt stóra ráðstefnu hér á landi síðasta sumar mun tileinka heilu hefti umfjöllun og kynningu á verkefnum sýningarinnar. Auk þess mun sýningin fara á flakk um Evrópu að lokinni sýningunni í EXPÓ.

Íslenska tónlistakonan Hafdís Bjarnadóttir samdi auk þess sérstaklega tónlistarinnsetningu fyrir sýninguna í heild sinni.

Framkvæmdastjóri sýningarinnar er Kjersti Wikström, arkitekt maa hjá DAC, hönnuður sýningarinnar er Dagný Bjarnadóttir, landslagsarkitekt FILA.

















yfirlit