Hönnunarsafn Íslands opnaði að Garðatorgi 1, í Garðabæ þann 27. maí, með sýningu sem ber heitið “Úr hafi til hönnunar”. Á sýningunni gefst kostur á að skoða fjölbreytt úrval gripa úr roði og fiskleðri eftir íslenska og erlenda hönnuði. Að auki er til sýnis úrval úr safneign sem varpar ljósi á söfnunarsvið safnsins.
Munirnir á sýningunni koma víða að og eru fjölbreyttir enda er áherslan lögð á að sýna sjálft efnið. Skór, stólar, töskur, útivistarfatnaður, skálar, kjólar, bækur og skartgripir ásamt fleiru eru viðfangsefni þeirra hönnuða og fyrirtækja sem eiga muni á sýningunni, má þar nefna heimsfræg nöfn úr tískuheiminum eins og Karl Lagerfeld og Christian Dior.
Margir íslenskir hönnuðir og listhandverksfólk hefur notað þetta efni í áraraðir, má nefna Eggert feldskera, Arndísi Jóhannsdóttur í Kirsuberjatrénu, fatahönnuðinn Steinunni Sigurðadóttur og textílhönnuðinn Önnu Gunnarsdóttur á Akureyri. Verk þeirra og fjölda annarra íslenskra og erlendra hönnuða njóta sín vel í nýjum og glæsilegum salarkynnum Hönnunarsafns Íslands.
Sýningarstjóri er Harpa Þórsdóttir forstöðumaður Hönnunarsafns Íslands en hönnun sýningarinnar er í höndum Sruli Recht Studio.
Efnisval er mikilvægur þáttur í allri
hönnun og sköpun. Oft eru það
eiginleikar efnisins sem veita hönnuðum innblástur en efnið getur einnig verið
sá þáttur sem hamlar og takmarkar þróun og vinnu. Sýningin "Úr hafi til hönnunar" sýnir
okkur hráefni sem íslenskir og erlendir hönnuðir og listhandverksfólk hafa
farið að nota í nokkuð ríkum mæli á síðustu árum.
Roðið, eða fiskleðrið
eins og farið er að kalla roðið þegar búið er að súta það, er feiknarsterkt.
Það er þunnt og þjált og hægt að lita í ótal afbrigðum og velja á það ólíkar
áferðir. Á sýningunni er sýndur vinnsluferill hráefnisins í sútunarverksmiðju
Sjávarleðurs á Sauðárkróki ásamt því að sýndir eru valdir munir sem endurspegla
fjölbreytileika efnisins og möguleika þess.
Elstu hlutirnir á sýningunni eru roðskór úr
hlýra og steinbítsroði sem minna á að roðið var ekki aðeins borðað fyrr á tíðum
heldur einnig þurrkað og sniðið í skó. Steinbítsroð mátti nota til bókbands og
á sýningunni má einnig sjá húsgögn með þessu slitsterka áklæði. Nytjahlutir svo
sem skálar og púðar hafa verið áberandi í íslensku handverki og skór eftir
íslenska og erlenda skóhönnuði endurspegla þá staðreynd að fiskleður er sterkt
og endingargott.
Fatnaður eftir íslenska og erlenda hönnuði er einnig sýndur og
má þar sjá bæði klassísk snið og djarfa meðhöndlun á leðrinu. Sá gripur sem
kemur einna mest á óvart á sýningunni er gítartaska fyrir 6 flöskur af Dom
Pérignon Rosé árgangskampavínum sem hönnuð var af Karli Lagerfeld og er úr
bleiku karfaroði sem valið var af kostgæfni fyrir þennan lúxusgrip.
Í íslenskri náttúru má finna gjöfulan efnivið sem allar
skapandi stéttir hafa nýtt sér á hverjum tíma. Fiskurinn er í raun engin
undantekning þar á. Reyndar er grunnhráefnið sem verksmiðja Sjávarleðurs
verkar, að mestu leyti flutt inn, en sú staðreynd vegur ekki á móti því að
iðnaðurinn er rekinn með hreinni orku og að úr lítilfjörlegu roði er verkað
leður sem telst til hágæða. Hráefni sem annars hefði verið kastað. Endurnýting
er stórt hugtak í allri hönnun og rík áhersla er lögð á umhverfisvernd. Það er
merkilegt að við kunnum að endurnýta þetta hráefni og að í landinu sé til svo
sértæk þekking í iðnaði á sútun fiskroðs
sem margir hlutirnir á sýningunni bera vitni um.
Hönnunarsafn Íslands var stofnað í lok árs 1998. Það er
rekið af Garðabæ samkvæmt samningi bæjarfélagsins við Menntamálaráðuneytið. Í
safninu er lögð áhersla á að safna, rannsaka og miðla íslenskri hönnun og
handverki frá aldamótunum 1900 til dagsins í dag. Safnið er hið eina sinnar
tegundar á Íslandi og á vegum þess hafa verið haldnar sýningar á íslenskri og
alþjóðlegri hönnun.
Safneign safnsins samanstendur nú af um 1000 munum og eru
íslensk húsgögn meginhluti safneignarinnar. Safnið á að auki töluvert af hlutum
úr öðrum greinum hönnunar og handverks, svo sem leir- og glermuni, fatnað og
grafíska hönnun.
Mikil áhersla er einnig lögð á að byggja upp heimildasafn um
alla íslenska hönnuði, sýningar þeirra og helstu verk.
Safnið er opið gestum, alla daga nema mánudaga kl. 12-17.
honnunarsafn.is