Hönnunarsafn Íslands opnaði að Garðatorgi 1, í
Garðabæ þann 27. maí, með sýningu sem ber heitið “Úr hafi til hönnunar”. Á
sýningunni gefst kostur á að skoða fjölbreytt úrval gripa úr roði og fiskleðri
eftir íslenska og erlenda hönnuði. Að auki er til sýnis úrval úr safneign
sem varpar ljósi á söfnunarsvið safnsins.
Safnið
er opið gestum, alla daga nema mánudaga kl. 12-17.
Hönnunarsafn Íslands er 12 ára í ár. Safnið hefur fengið aðstöðu í
stórum hluta gamla Hagkaupshússins við Garðatorg og hefur nú til umráða yfir
500 fermetra rými fyrir safnið auk um 1.000 fm geymslurýmis fyrir safngripi. Sýningasvæði safnsins er á efri
hæð hússins, það er stórt og bjart til sýningahalds, alls tæpir 400 m2 en
inngangur, andyri, kaffiveitingar, barnakrókur og verslunin Kraum eru staðsett
á neðri hæð. Arkitektastofan Kanon hefur séð um
teikningu og hönnun á nýja safninu auk þess sem Þráinn Hauksson landslagsarkitekt hjá teiknistofunni Landslag annaðist hönnun aðkomusvæðis fyrir safnið.
Hönnunarsafn Íslands var stofnað í lok árs 1998. Það er
rekið af Garðabæ samkvæmt samningi bæjarfélagsins við Menntamálaráðuneytið. Í
safninu er lögð áhersla á að safna, rannsaka og miðla íslenskri hönnun og
handverki frá aldamótunum 1900 til dagsins í dag.
Safnið er hið eina sinnar
tegundar á Íslandi og á vegum þess hafa verið haldnar sýningar á íslenskri og
alþjóðlegri hönnun. Safneign safnsins samanstendur nú af um 1000 munum og eru
íslensk húsgögn meginhluti safneignarinnar. Safnið á að auki töluvert af hlutum
úr öðrum greinum hönnunar og handverks, svo sem leir- og glermuni, fatnað og
grafíska hönnun.
Mikil áhersla er einnig lögð á að byggja upp heimildasafn um
alla íslenska hönnuði, sýningar þeirra og helstu verk.
honnunarsafn.is