Í barnastærðum
Íslensk og alþjóðleg hönnun fyrir börn
13. mars - 2. maí 2010
Í barnastærðum er sýning sem veitir innsýn í heillandi heim hönnunar fyrir börn. Sýningargestir á öllum aldri kynnast leikföngum og húsgögnum sem sérstaklega eru hönnuð fyrir börn og sækja innblástur í leiki þeirra og hugmyndaheim. Bæði verður sýnd íslensk og alþjóðleg hönnun en eitt af meginmarkmiðum sýningarinnar er að skoða verk íslenskra hönnuða. Mikill hluti þess sem unnið hefur verið hér á landi eru húsgögn og leikföng sem hönnuðir, arkitektar og listamenn hafa unnið fyrir sín eigin börn og fæst hefur komist í almenna framleiðslu. Eldri hluti sýningargripanna hefur ekki verið mikið sýndur opinberlega og er sýningin því einstakt tækifæri til að kynnast lítt þekktum verkum annars þekktra höfunda. Verk yngri hönnuða hafa meira farið í almenna framleiðslu og eru nokkur dæmi um slík verk á sýningunni. Einnig eru á sýningunni fjöldi hluta yngri hönnuða sem bera merki þeim krafti sem einkennt hefur íslenska hönnun á undanförum árum. Flestir erlendu hlutirnir eru eftir vel þekkta hönnuðir og hafa ýmist haft áhrif á íslenska hönnun eða sækja í svipaðar hugmyndir og setja þannig íslensku hlutina í alþjóðlegt samhengi.
Í tilefni sýningarinnar hafa þrír ungir hönnuðir unnið nýsköpunarverkefni og tekið að sér að hanna fyrir börn. Þau höfðu frjálsar hendur um það hvernig þau tókust á við verkefnið og er árangur vinnu þeirra á sýningunni auk þess sem sköpunarferlinu eru gerð skil.
Skemmtilegt innlegg í sýninguna er vinna nemenda í vöruhönnun við Listaháskóla Íslands en þau hönnuðu og smíðuðu kassabíla innblásna af hugmyndum frægra hönnuða. Kassabílarnir verða sýndir en ungir sýningargestir fá einnig að kanna notagildi þeirra og aka um í safninu. Þannig skiptist sýningin annarsvegar í hefðbundið sýningarrými þar sem hlutir eru sýndir og þeim gerð skil með textum og upplýsingum um höfunda og hinsvegar rými þar sem gestir á öllum aldri geta prófað sýningargripi og kannað þannig notagildi þeirra og hugmyndirnar að baki þeim. Einnig verður hluti safnsins lagður undir smiðju þar sem gestir geta notað innblástur sýningarinnar í eigin sköpun.
Sýningarstjóri er Tinna Gunnarsdóttir hönnuður.
Sýningin er unnin í samstarfi við Hönnunarsafn Íslands sem leggur til marga sýningargripi og faglegan stuðning. Sýningin nýtur stuðning Safnasjóðs, menntamálaráðuneytis, verslunarinnar Epal og Pennans.
Viðamikil dagskrá verður í boði fyrir gesti safnsins á öllum aldri en einnig er boðið upp á fræðslu fyrir skólahópa sem bæði geta tekið þátt í leiðsögnum og listsmiðjum. Nánari upplýsingar á heimasíðu safnsins
www.hafnarborg.is. Sýningin er hluti af
Hönnunarmars 18. - 21. mars.
Dagskrá:
Sýningarstjóraspjall
Sunnudag 14. mars kl. 15
Tinna Gunnarsdóttir hönnuður og sýningarstjóri sýningarinnar annast leiðsögn.
Samtal við hönnuði á HönnunarMars
Laugardag 20. mars kl. 15
Hanna Jónsdóttir, Haraldur Civelek og Ragnheiður Ösp kynna nýsköpunarverkefni sem unnin voru sérstaklega fyrir sýninguna í samstarfi við hönnunarsjóð Áróru.
Samtal við hönnuð
Fimmtudag 8. apríl kl. 20
Hönnuðurinn og listamaðurinn Guðlaugur Valgarðsson mun ræða við sýningargesti um verk sitt og starf.
Samtal við hönnuð
Sunnudag 18. apríl kl. 15
Harpa Þórsdóttir forstöðumaður Hönnunarsafns Íslands ræðir við Gunnar Magnússon einn af afkastamestu húsgagnahönnuðum landsins um ferilinn og íslenska húsgagnahönnun á síðustu áratugum.
Örnámskeið
Sunnudagana 14. og 28. mars kl. 14
fimmtudag 22. apríl kl. 14 og
sunnudag 25. apríl kl. 14
Sköpunarsmiðja þar sem sýningin er notuð sem innblástur í hugleiðingar um hönnun og vinnu á verkstæði þar sem gestir fá tækifæri til að vinna útfrá hugmyndum sem birtast í sýningunni. Örnámskeið fyrir börn og fullorðna í fylgd með þeim. Þátttaka er ókeypis og öllum heimil á meðan húsrúm leyfir.
S
ýningin stendur til 2. maí 2010. Í Hafnarborg er opið alla daga 12 - 17 nema þriðjudaga og á fimmtudögum 12 -21. www.hafnarborg.is s. 585 5790