19.11.2009

STEiNUNN

 
 
 
 
 
Næstkomandi laugardag 21. nóvember kl. 16 verður opnuð í Listasafni Reykjavíkur - Kjarvalsstöðum yfirlitssýning á fatahönnun Steinunnar Sigurðardóttur. Hróður Steinunnar hefur borist víða frá því að fyrsta flíkin undir hennar merkjum leit dagsins ljós árið 2000 og hefur hún hlotið margvísleg verðlaun og viðurkenningar á heimsvísu.

Það sem öðru fremur einkennir hönnun Steinunnar er tímaleysi, kvenlegur þokki, innblástur úr íslenskri náttúru og virðing fyrir þjóðlegri handverkshefð. Á sýningunni er fatnaður Steinunnar sýndur á þrjátíu Rootstein gínum, sem fluttar voru sérstaklega til landsins frá New York í tilefni af sýningu hennar á Kjarvalsstöðum. Á sýningunni er flíkum frá ólíkum tímabilum teflt saman með  áherslu á frumeintök sem ekki eru fjöldaframleidd. Ljósmyndir af fatnaði Steinunnar, eftir einn fremsta ljósmyndara heims, Mary Ellen Mark, prýða veggi salarins og einnig er leitast við að varpa ljósi á hugmyndalega og efnislega uppsprettu hönnunar hennar.

STEINUNN SIGURÐARDÓTTIR
Steinunn á langan feril að baki við tísku- og fatahönnun. Hún hefur starfað með þekktustu hönnuðum heims; Ralph Lauren 1987-1988, Calvin Klein 1989-1995, Gucci 1995-2000 og sem yfirhönnuður hjá La Perla 2000-2003. Hönnun Steinunnar hefur verið sýnd á tískusýningum og í lista- og hönnunarsöfnum víða um heim og eru flíkur hennar nú meðal safngripa hjá mörgum þeirra. Steinunn hefur unnið að margvíslegum verkefnum sem stuðla að kynningu Íslands erlendis, verið sýningarstjóri á hönnunarsýningum, stundað kennslu og flutt fyrirlestra.

Steinunn Sigurðardóttir er borgarlistarmaður Reykjavíkur 2009. Árið 2008 hlaut hún, fyrst fatahönnuða, hin sænsku Torsten och Wanja Söderberg verðlaun sem eru stærstu hönnunarverðlaun heims. Hún hlaut norrænu hönnunarverðlaunin Gínuna árið 2007, var tilnefnd til Íslensku sjónlistaverðlaunanna 2006 og hlaut árið 2003 Menningarverðlaun DV sem hönnuður ársins. Hún var sæmd riddarakrossi hinnar íslensku fálkaorðu árið 2007.

Stílisti sýningarinnar er Kristín Björgvinsdóttir, sýningarhönnuður Páll Hjaltason og sýningarstjóri Soffía Karlsdóttir.

Sýningin stendur til 31. janúar 2010.

Helstu samstarfsaðilar sýningarinnar eru Icelandair, Rootstein Mannequin, CCP og RioTintoAlcan.

Þetta segir í fréttatilkynningu frá Listasafni Reykjavíkur.

www.steinunn.com















yfirlit