|
|
|
|
|
Yfirlitsmyndir frá sýningunni.
Ljósmyndari: Ingvar Högni Ragnarsson
|
Næstkomandi sunnudag er hinn Íslenski safnadagur haldinn hátíðlegur. Af því tilefni mun Listasafn Reykjavíkur bjóða upp á einstakt tækifæri til að kynnast íslenskri hönnun og arkitektúr í fremstu röð í spjalli sem
Elísabet V. Ingvarsdóttir, sýningarstjóri sýningarinnar ´Íslensk hönnun 2009 – húsgögn, vöruhönnun og arkitektúr´ annast á Kjarvalsstöðum. Sýningin er unnin í samvinnu við Hönnunarmiðstöð Íslands. Aðgangur er ókeypis.
Fátt er eins lýsandi fyrir mannlegt samfélag og það umhverfi sem maðurinn hefur mótað til daglegra athafna. Segja má að í manngerðu umhverfi birtist spegilmynd hönnunarsögunnar; ólíkar myndir hönnunar, breytilegar eftir tíðaranda, gildismati, ríkjandi hugmyndafræði, túlkun og aðstæðum hverju sinni.
Á sýningunni er sýnd íslensk samtímahönnun þar sem er unnið með tengsl þriggja hönnunargreina sem eiga stóran þátt í því að móta manngert umhverfi með samspili sín á milli. Í spjallinu ræðir Elísabet samhengi þeirra og hvernig þær eru samofnar mannlegri hegðun allt frá því að eiga þátt í að skipuleggja tímann, væta kverkarnar eða verja okkur fyrir náttúruhamförum. Skoðuð verða gríðarstór mannvirki og fínleg nytjahönnun sem eiga þó það sameiginlegt að tilheyra manngerðu umhverfi og vera mótandi þáttur í því. Rædd verður hugmyndavinna hönnuða, sérkenni, áhrifavaldar og hugmyndafræði og hvernig hönnuðurinn leggur oft af stað í ferð hönnunarferlisins á sambærilegan hátt hvort sem um snjóflóðavarnir, stól eða hnífapör er að ræða.
Skoðað verður hvernig sýningunni er ætlað að vera spegill þess sem telja má á einn eða annan hátt gæði í íslenskri hönnun undanfarin ár og gefa ákveðna mynd af íslenskri samtímahönnun. Þar sem góðar hugmyndir hafa þroskast af faglegum metnaði, alvöru og skynsemi; hugmyndir sem eru unnar til enda í anda hugsunarháttar sem vert er að setja á oddinn í dag. Markmiðið er að árétta gildi góðrar hönnunar og öflugs hugvits fyrir mannlegt samfélag - verðmæti til að virkja til framtíðar.
Sýningin er samstarfsverkefni Hönnunarmiðstöðvar Íslands og Listasafns Reykjavíkur og var á dagskrá Listahátíðar í Reykjavík. Hönnunarmiðstöð Íslands hyggst nota sýninguna áfram til að kynna íslenska hönnun á erlendri grund. Aðgangur er ókeypis.
Sýningin stendur til 9. ágúst.
www.listasafnreykjavikur.is