30.6.2009

Sumarsýning Hönnunarsafns Íslands




Úrval gripa úr safneign Hönnunarsafns Íslands

Úrval íslenskrar hönnunar frá síðustu árum er til sýnis í safnhúsi Hönnunarsafns Íslands að Lyngási í Garðabæ. Á sýningunni má sjá þverskurð af mismunandi tegund hönnunar sem safnið safnar: Listhönnun, vöruhönnnun, húsgagnahönnun og grafískri hönnun.

Margt af því sem fyrir augun ber eru framleiðsluvörur og það eru fyrirtæki á borð við Crymogeu, Puma, Ikea, Christofle, Swedese og Källemo sem framleiða hlutina. Allir gripirnir á sýningunni eru eftir íslenska hönnuði og samstarfsfólk þeirra.

Hönnuðirnir eru: Aðalsteinn Stefánsson, Aleksej Iskos, Dögg Guðmundsdóttir, Guðný Magnúsdóttir, Hildigunnur Gunnarsdóttir, Hjalti Karlsson, Hlynur Vagn Atlason, Jan Wilker, Katrín Ólína Pétursdóttir, Kristín Sigfríður Garðarsdóttir, Michael Young, Sigga Heimis, Sigrún Einarsdóttir, Sigurður Gústafsson og Snæfríð Þorsteins.

Opnar geymslur

Húsgagnageymsla safnsins er opin almenningi í sumar og þar mætast tímarnir tvennir. Stór hluti af íslenska stólasafninu er til sýnis en einnig lampar, bekkir og annar íslenskur húsbúnaður. Í geymslunni geta gestir virt fyrir sér nokkurt úrval íslenskra áklæða og hluti sem voru og eru í framleiðslu ásamt nokkrum frumgerðum eftir íslenska smiði og hönnuði.

Safnhús Hönnunarsafnsins er opið alla fimmtudaga – sunnudaga í sumar, frá klukkan 13-17. Aðgangur er ókeypis.

Hönnunarsafn Íslands
















yfirlit