Laugardaginn 16. maí n.k. opnar í
Ljósmyndasafni Reykjavíkur sýningin Lífið er ekki bara leikur - það er líka dans á rósum sem er samstarfsverkefni Ljósmyndasafns Reykjavíkur og hönnunar- og arkitektúrdeildar Listaháskóla Íslands.
Sýningarstjórar eru þau Guðmundur Oddur Magnússon (Goddur) prófessor í grafískri hönnun og Guðfinna Mjöll Magnúsdóttir fagstjóri vöruhönnunar.
Í grein sem Goddur ritar í sýningarskrá segir: „Þetta er sýning á íslenskum ímyndarljósmyndum frá sjöunda áratug síðustu aldar. Unglingamenning er að verða til eftir rokkbyltinguna. Ferskir vindar blása. Íslenska þjóðin er flutt úr sveitinni til borgarinnar. Hún saknar reyndar sveitarinnar. Það var sungið „Manstu litlu lömbin“ eða „Ég vil fara uppí sveit“. En það var horft til framtíðar og íslenskur iðnaður var það sem allt snerist um ásamt tengingunni við lífsstíl. Þannig verða þessar myndir til. Orðið hönnun er glænýtt í íslenskri tungu, ferskt og ónotað. Það er sprottin fram ný kynslóð með öðruvísi viðhorf. Þau geta ekki setið á sama hátt og foreldrarnir. Þau vilja öðruvísi stóla. Þau eru táningar í kringum 1960. Þau muna ekki hörmungar seinni heimsstyrjaldarinnar. Það er vor í hjörtum þeirra og framtíðarsýn um ferðalög til tunglsins. Það er búið að senda hunda, apa og menn út í geim. Bítlarnir búnir að baka Elvis og pilsin orðin stutt. Lakkrísbindi, nælonskyrtur og támjóir skór. Vængjaðir amerískir átta gata kaggar á rúntinum. Khrústsjov búinn að berja skónum í púlt Sameinuðu þjóðanna. Sæmi rokk að tvista, Ómar Ragnarsson með „Þrjú hjól undir bílnum“ og Ellý syngur „Vegir liggja til allra átta“. Já, okkur virtust allir vegir færir. En svo kom reyndar kreppa. Íslendingar fluttust til Svíþjóðar og Kanada í atvinnuleit. Hipparnir urðu reiðir og mótmæli brutust út. En það er önnur saga. Þessi saga er um bjartsýnina og blóm í haga.“
Sýningin er á dagskrá
Listahátíðar 2009 og er opin virka daga frá 12-19 og frá kl 13-17 um helgar.
AÐGANGUR ER ÓKEYPIS
http://www.ljosmyndasafnreykjavikur.is/